Landsvirkjun undirritaði í dag samning um útgáfu skuldabréfs að fjárhæð 100 milljónir Bandaríkjadollara, 11,7 milljarðar króna. Skuldabréfið er til fimm ára og ber fasta 6,5% vexti. Milligönguaðili er Deutsche Bank og eru kaupendur erlendir fjárfestar.
Kjör ásættanleg með tilliti til aðstæðna
Útgáfan markar tímamót hjá Landsvirkjun en hún er fyrsta skuldabréfaútgáfa fyrirtækisins sem seld er til erlendra fjárfesta eftir bankahrunið 2008, samkvæmt tilkynningu.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar segir útgáfuna mjög jákvæða fyrir fyrirtækið:
„Þessi skuldabréfaútgáfa er mjög jákvæð fyrir Landsvirkjun en með henni tryggir fyrirtækið enn frekar lausafjárstöðu sína. Kjör skuldabréfsins eru einnig, í ljósi erfiðra markaðsaðstæðna, vel ásættanleg fyrir fyrirtækið. Útgáfan endurspeglar jafnframt mikið traust erlendra aðila á fyrirtækinu og gefur fyrirheit um að aðgengi að erlendu fjármagni sé að rýmkast“.
Endurfjármögnun að mesu leyst fyrir næstu árin
Fyrirtækið hefur nú aðgang að um 450 milljónum Bandaríkjadala til að mæta skuldbindingum næstu ára. Landsvirkjun hefur með þessu móti leyst verulegan hluta af endurfjármögnunarþörf fyrirtækisins fyrir árin 2012 og 2013.
Að gefnu tilefni vill Landsvirkjun taka fram að þessi útgáfa skuldabréfa tengist ekki fyrirhuguðum framkvæmdum við Búðarhálsvirkjun. Landsvirkjun hefur samhliða þessari útgáfu unnið að fjármögnun þess verkefnis og er gert ráð fyrir að þau mál skýrist á næstu vikum.