Icelandair fullt af lofti

Flugvél Icelandair.
Flugvél Icelandair. Ljósmynd/Sigurður Bogi Sævarsson

Icelandair tapaði 10,7 milljörðum króna árið 2008 og 7,5 milljörðum í fyrra, samtals 18,2 milljörðum króna eða að meðaltali rúmri milljón á klukkustund. Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, benti á þetta í fyrirlestri í vikunni en hann telur óefnislegar eignir Icelandir stórlega ofmetnar.

Matthías fjallaði um stöðu Icelandair í fyrirlestri á vegum Samtaka verslunar og þjónustu í vikunni en þar kom fram óefnislegar eignir félagsins eru metnar meira en tvöfalt meira en hjá British Airways, einu stærsta flugfélagi Evrópu.

Framtakssjóður hefur lagt fé í Icelandair.

„Á fundinum var lögð fram gagnrýni á að Fjárfestingarsjóður væri í samkeppni við aðra fjárfesta og þá svaraði Finnbogi Jónsson [framkvæmdastjóri sjóðsins] því til að sjóðurinn hefði skoðað mikið af fjárfestingum en orðið undir í samkeppni í mörgum tilfellum.

Hann nefndi þar Securitas og fleiri félög. Þær ályktanir sem voru dregnar af þessu á fundinum - þótt hann hafi ekki sagt það berum orðum - voru að þær fjárfestingar sem sjóðurinn hefði komið að hefðu verið fjárfestingar sem fjárfestar sýndu minni áhuga,“ segir Matthías.

Íslandsbanki leggur félaginu til mikið fé

Íslandsbanki á hlut í Icelandair og taldi Matthías í fyrirlestri sínum bankann hafa lagt félaginu til 20,8 milljarða króna í formi afskrifta skulda og nýrra lána.

Eiginfjárframlag bankans sé 3,6 milljarðar króna og þar af sé afskrift upp á 1,8 milljarða króna, þar eð bankinn hafi breytt skuldum í eigið fé á genginu 5 en aðrir, þ.m.t. lífeyrissjóðir, keypt bréf í félaginu á genginu 2,5. Þá nemi yfirtaka eigna 7,6 milljörðum króna og nýjar lánveitingar 9,6 milljörðum. 

Til samanburðar hafi Framtakssjóður lífeyrissjóða lagt til 3 milljarða króna í félagið, Lífeyrissjóður verslunarmanna 1 milljarð króna og aðrir stofnanafjárfestar 1,5 milljarð króna. Þá hafi félagið vilyrði fyrir frekari innspýtingu fjármagns upp á 2,5 milljarða króna, þar sem Framtakssjóður hafi boðað að leggja til 700 milljónir króna á þessum ársfjórðungi sem lýkur í lok mánaðarins.

Vekur minningar frá árinu 2007

Þrátt fyrir þessa innspýtingu segir Matthías að óefnislegar eignir Icelandair verði á bilinu 23-24 milljarðar króna að lokinni eiginfjáraukningunni og að efnislegt eiginfé sé því enn hverfandi í samanburði við þær í efnahagsreikningnum.

Hinar óefnislegu eignir hafi verið 23.598 milljónir króna í síðasta efnahagsreikningi og því 181% meiri en eigin fé félagsins upp á 14.605 milljónir króna. Skuldir nemi rétt tæpum 75 milljörðum króna.

Slík bókfærsla rifji að mati Matthíasar upp minningar frá árinu 2007 þegar það hafi tíðkast að „setja loft“ í efnahagsreikninga félaga. Viðskiptavild upp á 16 til 18 milljarða króna og réttur á flugvallarstæðum séu bókfærðar sem óefnislegar eignir í bókum Icelandair. Viðskiptavildin sé metin á himinháa fjárhæð og sé til að mynda mun meiri en hjá British Airways þar sem hún sé 40 milljónir punda eða á áttunda milljarð króna.

Með hliðsjón af ofangreindum tölum um eiginfjárreikning félagsins setur Matthías spurningamerki við arðsemi eiginfjár úr vösum nýrra fjárfesta, þar með talið úr hendi lífeyrissjóða.

Hann telur hins vegar ýmis jákvæð teikn í rekstri Icelandir, ásamt því sem aðskilnaður Smart Lynx og Bluebird Cargo muni létta á rekstri félagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK