Kaupmáttur launa er nú svipaður og hann var árið 2003. Því lætur nærri að kreppan hafi þurrkað upp alla kaupmáttaraukninguna sem átti sér stað á tímabilinu 2004-2008, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.
Kaupmáttur launa minnkaði um 0,2% í ágúst frá fyrri mánuði, en undanfarna tólf mánuði hefur hann aukist um 1,4%. Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem kaupmáttur launa hækkar miðað við tólf mánaða taktinn en þar á undan hafði hann lækkað linnulaust allt frá ársbyrjun 2008 vegna mikillar verðbólgu á sama tíma og lítil breyting var á launum, samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka.
Hefur kaupmáttur launa nú rýrnað um 10,6% frá því að hann var hér mestur í janúar árið 2008 og er nú á svipuðum stað og hann var árið 2003.
Jákvæðari þróun virðist nú vera hafin í innbyrðis þróun launa og verðlags og reikna má með því að kaupmáttur launa aukist hóflega á næstunni og þá einna helst vegna frekari hjöðnunar verðbólgunnar, segir ennfremur í Morgunkorni.
„Samhliða útgáfu mánaðarlegrar launavísitölu birtir Hagstofan greiðslujöfnunarvísitöluna. Vísitalan fyrir októbermánuð var 101,2 stig og hækkar lítillega milli mánaða, eða um 0,2 stig. Er vísitalan reiknuð sem margfeldi af launavísitölu og atvinnustigi og er stuðst við tölur ágústmánaðar við útreikning á vísitölunni fyrir október.
Ástæðan fyrir breytingunni nú er sú að atvinnuleysi minnkaði um 0,2 stig milli mánaða í ágúst, þ.e. fór úr 7,5% í júlí í 7,3% í ágúst, en launavísitalan stóð í stað á sama tíma eins og á undan er getið.
Gildi greiðslujöfnunarvísitölunnar nú er hið hæsta frá því útreikningur hennar hófst í janúar 2008. Verður greiðslubyrði þeirra sem eru með íbúðalán sín í greiðslujöfnun því meiri en verið hefur frá því greiðslujöfnunin var innleidd undir lok ársins 2008," segir í Morgunkorni í dag.