Frá því kaupmáttur launa náði hámarki í árslok 2007 hefur hann minnkað um 11%. Ef aðeins er horft til síðustu 12 mánaða kemur hins vegar í ljós að hann hefur aukist um 1,4%.
ASÍ fjallar um þessar breytingar á heimasíðu sinni. Vísitala kaupmáttar launa lækkaði um 0,2% í ágúst. Kaupmáttaraukningin síðustu mánuði varð fyrst og fremst í júní og júlí sl., en þessa tvo mánuði komu inn í mælinguna áhrif frá almennum launahækkunum í júní og tímabundin lækkun verðlags vegna sumarútsala.
Margt bendir til þess að verðbólga haldi áfram að lækka á næstunni en það myndi hafa jákvæð áhrif á þróun kaupmáttar næstu misseri.