Skattar mikilvægir og óumflýjanlegir

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og fjármálaráðherra. Ernir Eyjólfsson

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á skattafundi SA og Viðskiptaráðs að skattar væru mikilvægir og óumflýjanlegir ef byggja á upp nútímasamfélag.

Sagði hann það ranghugmynd að að aðlögun í ríkisfjármálum hefði aðallega verið á skattahliðinni. Vorið 2009 hefði stefnt í að halli á frumjöfnuði ríkissjóðs yrði um 9 prósent af vergri landsframleiðslu, en nú sé útlit fyrir að hallinn verði ríflega tvö prósent af VLF. Þá hefði frumtekjur aukist um 2,5 prósent af VLF en útgjöld dregist saman um fjögur prósent af landsframleiðslu.

Árið 2011 er gert ráð fyrir því að frumjöfnuður hafi batnað um 9,7 prósent af landsframleiðslu og að 78 prósent aðlögunarinnar komi á gjaldahliðinni. Með öðrum orðum verði meira skorið niður af útgjöldum en tekið verði inn í formi skatta. Því eigi tal um skattpíningu ekki rétt á sér.

Steingrímur sagði einnig að hann væri ekki sannfærður um þau rök að minni skattprósenta muni skila ríkissjóði meiri tekjum. Sagði hann að þrátt fyrir að skattaumhverfi hafi verið mjög vinsamlegt fyrirtækjum fyrir hrun hafi fjármagn streymt út úr landinu.

Þá sagði Steingrímur að ýmsar forsendur, sem menn gefi sér í skýrslu SA og Viðskiptaráðs, ekki sannaðar. Sagði hann að rekstur hins opinbera væri ekki óhagkvæmur, heldur væri þvert á móti arðsamur. Hann snúist um að byggja upp innviði samfélagsins, menntun, samgöngur og annað slíkt. Umræðan eigi ekki að snúast um óhagkvæmni, heldur útfærslu - hvort hið opinbera eigi að standa straum af þessum kostnaði eða einkaaðilar.

Gilda önnur lögmál um viðhald?

Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest, benti í umræðum eftir ræðu Steingríms á átakið Allir vinna, sem fól í sér skattaívilnanir fyrir þá sem fóru í viðhald á húseignum. Markmið átaksins hefði verið að auka umsvif í atvinnulífinu með eftirgjöf skatta. Spurði Þórður hvort önnur lögmál giltu um viðhald heimila en almennt í atvinnulífinu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK