Mikil lækkun á skuldabréfamarkaði þurrkaði nánast út þá hækkun sem orðið hefur undanfarinn mánuð. Skuldabréfavísitala GAM Management, GAMMA: GBI, lækkaði um 5,45%.
Óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 3,12%, en verðtryggði hlutinn sýnu meira, 6,33%. Metvelta var í viðskiptum gærdagsins, eða alls um 36,5 milljarðar. Lækkunin varð í kjölfar þess að Seðlabankinn lækkaði vexti sína um 0,75 prósentustig og tilkynnti að aðgerðum yrði fram haldið til þess að afnema gjaldeyrishöft hraðar en áður hafði verið gefið til kynna.
Í ljósi þessa var reiknað með því að Seðlabankinn héldi áfram svipuðum takti í vaxtalækkunum sínum, en vextir voru lækkaðir um eitt prósentustig í ágúst. Þess í stað voru vextir lækkaðir um 0,75 prósentustig, og gefið sterklega til kynna að farið yrði í afnám hafta fljótlega í kjölfar þriðju endurskoðunar samstarfsáætlunar stjórnvalda og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem ljúka á fyrir mánaðarlok. Reikna má með því að Seðlabankinn reyni að viðhalda vaxtamuni til að sporna við fjármagnsflótta þegar höftum verður aflétt. Því má draga þá ályktun að lækkun stýrivaxta verði ekki jafn hröð og reiknað hafði verið með í aðdraganda vaxtaákvörðunarfundarins í dag.
Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAM Management, segir fjárfesta hafa misst trúna á Seðlabankann. „Það trúa því fáir að Seðlabankinn geti aflétt þessum höftum þegar hagvöxtur á næsta ári verður örugglega enginn, atvinnuleysi er eins mikið og það er og ríkisstjórnin riðar til falls. Þetta er ekki rétta augnablikið til þess að létta á höftum,“ segir hann.