Gagnrýni á þátt endurskoðenda í fjármálahruninu hefur heyrst úr mörgum áttum, nú síðast í skýrslu þingmannanefndar um niðurstöður Rannsóknarnefndar Alþingis. Þórir Ólafsson, formaður Félags löggiltra endurskoðenda, segir þessa gagnrýni ekki byggða á staðreyndum.
Vinnugögn endurskoðenda séu bundin trúnaði, og á meðan ekki sé stuðst við þau sem grundvöll gagnrýninnar sé hún þar með byggð á getgátum. Þetta kom fram á afmælisráðstefnu FLE, en félagið fagnar 75 ára afmæli.
„Þetta er bara sú staða sem við lifum við. Við höfum opinn aðgang að nánast öllum trúnaðarupplýsingum fyrirtækja, en endurskoðendur geta ekki farið með þær út á markaðinn til þess eins að rétta af umræðu sem þeim þykir ósanngjörn,“ segir Þórir.
Með lögum sem tóku gildi í byrjun síðasta árs var stórum hluta þess lagaumhverfis sem snýr að endurskoðendum breytt. Þórir segir að taka verði það með í reikninginn þegar hann er spurður að því hvort endurskoðendur hafi farið, eða ætli sér, í sérstaka naflaskoðun vegna hrunsins.
„Endurskoðendur eru uppteknir af því að fara inn í þetta nýju regluverk. Það að vera að eyða tíma í að skoða það sem á undan er gengið er eitthvað sem menn gera til að læra af,“ segir Þórir.