Seðlabanki Íslands var með 450 milljarða króna í samningum við fjármálastofnanir hér á landi er hrunið varð. Við fall bankanna varð stór hluti veðanna verðlaus, (áður voru veðin svonefnd ástarbréf ofl.) en afhending peningaseðla án veða er kölluð „þyrluafhending" og hefur sömu áhrif og ef Seðlabankamenn hefðu flogið í þyrlu yfir Reykjavík og hent niður peningabúntum.
Þetta er meðal þess sem fram kom í fyrirlestri Ásgeirs Jónssonar, aðalhagfræðings Arion banka á fundi greiningardeildar bankans í morgun.
Hann segir nauðsynlegt að hleypa lífi í hlutabréfamarkaðinn áður en gjaldeyrishöftunum verður aflétt. Að öðrum kosti megi búast við því að stór hluti peninga sem eru í umferð leiti út fyrir landsteinanna.
Ásgeir segir að eftir að lausafjárkreppan hófst um mitt ár 2007 hafi fólk og félög losað eignir sínar í hlutabréfum og öðrum fjárfestingum og sett peningana inn á bankareikninga. Nú hafi vextir á bankareikningum lækkað verulega og því séu peningarnir farnir að leita út af bankareikningunum. Það skýri þau miklu viðskipti sem hafi verið á skuldabréfamarkaði undanfarið.
Væntanlega mun féð leita inn á fasteignamarkaðinn næst eða í aðra fjárfestingakosti, til að mynda í myndlist og aðra mögulega fjárfestingu.
Að sögn Ásgeirs er það þannig að þegar óvissa ríkir þá vill almenningur selja eignir sínar og fara í beinharða peninga og setur þá inn í bankakerfið. Síðan eru peningarnir í bönkunum sem ekki lána neitt út þannig að ekkert gerist. Á ákveðnum tímapunkti, eins og nú er að gerast, þá fara vextir niður og fólk fær litla sem enga ávöxtun á innistæður sínar.
Ef hlutabréfamarkaðurinn væri eðlilegur þá myndi hann taka við þessum peningum, segir Ásgeir. Sú hætta sé fyrir hendi að þegar gjaldeyrismarkaðurinn opnar þá leiti peningarnir út. Ef ekki þá er hætta á að verðbólga rjúki upp þar sem neysla eykst.
Ásgeir segir að það sé hans skoðun að Seðlabankinn hafi einblínt allt of mikið á vexti. Miklu mikilvægara sé að bjóða upp á fjárfestingarkosti sem fær fólk til að festa peningana sína í. Lykilatriðið þar er hluta bréfamarkaðurinn. Því sé nauðsynlegt að fá hlutabréfamarkaðinn til að virka á ný. Það gerist með því að bankarnir selji það sem þeir eigi af fyrirtækjum og ríkissjóður styðji við bakið á slíkum aðgerðum. Lífeyrissjóðirnir hafa, að sögn Ásgeirs fengið ósanngjarna gagnrýni að undanförnu því þeir séu í raun einu stórfjárfestarnir á markaðnum. „Það verður að bjóða fólki upp á fjárfestingarkosti. Að öðrum kosti fara þeir úr landi," segir Ásgeir.
Ásgeir segir að staðan sé mun betri hér á landi heldur en víða erlendis. Hér sé vitað hver staðan er ólíkt því sem gerist annars staðar þar sem óvissan er algjör. Hér sé búið að skrifa niður eignir bankanna og endurfjármagna þá. Búið er að klippa af stóran hluta af erlendum skuldum landsins.
Í erindi Ásgeirs í morgun kom fram að innganga í Evrópusambandið og upptaka evru myndi gera ferlið hér auðveldara og kostnaðarminna.