Afkoma bæjarstjóðs Hafnarfjarðar var jákvæð á fyrri hluta ársins. Fram kemur í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ kemur fram, að afkoma bæjarsjóðs sé jákvæð um 168 milljónir og A og B hluta jákvæð um 441 milljónir.
Fram kemur í tilkynningunni, að fjármagnsliðir hafi nú jákvæð áhrif á heildarniðurstöðu reikninganna meðal annars vegna hagstæðrar gengisþróunar á tímabilinu. Rekstrarafkoma A hluta fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 301 milljón og rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði A og B hluta jákvæð um 25 milljónir.
Samkvæmt árshlutareikningnum eru heildartekjur í samræmi við áætlun 2010 en hins vegar eru laun og launatengd gjöld hærri en áætlað var, sem skýrist m.a. af fleiri störfum í sumar hjá ungu fólki, hækkun tryggingagjalds og að áhrif hagræðingaraðgerða koma fram á seinni hluta ársins.
Mesta frávikið frá áætlun liggur í fjármagnsliðum en reiknaður gengishagnaður erlendra lána er 862 milljónir og reiknaðar verðbætur voru heldur hærri en reiknað var með í áætlun. Þá hafa vextir af erlendum lánum lækkað enn frekar það sem af er árinu.
Heildareignir A hluta bæjarsjóðs námu í júnílok 36.630 milljónum en fjárfestingar á tímabilinu námu 198 milljónum króna. Skuldir og skuldbindingar námu 32.394 milljónum og lækkuðu um 855 milljónir á tímabilinu. Tekin voru ný lán að fjárhæð 500 milljónir til skuldbreytinga eldri lána en afborganir tímabilsins námu 827 milljónum og eigið fé í júní nam 4236 milljónum.