Landsvirkjun hefur samið um stækkun á fyrri skuldabréfaútgáfu úr 100 í 150 milljónir Bandaríkjadala, 17,2 milljarða króna. Er það þýski bankinn Deutsche Bank sem hefur milligöngu um skuldabréfaútgáfuna og eru kaupendur erlendir fjárfestar. Annað er óbreytt, lánstími er fimm ár og bera skuldabréfin 6,5% fasta vexti.
Landsvirkjun langt komin með endurfjármögnun til langtíma
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar segir í fréttatilkynningu stækkunina mjög jákvæða fyrir fyrirtækið: „Þessi stækkun er mjög jákvæð fyrir Landsvirkjun og endurspeglar góðar viðtökur við fyrra útboði. Það er mjög jákvætt að fá fleiri fjárfesta að borðinu og ljóst að Landsvirkjun hefur tekist að byggja upp traust á fyrirtækinu sem sýnir sig í þessari umframeftirspurn".
Landsvirkjun hefur nú aðgang að um 500 milljónum Bandaríkjadala til að mæta skuldbindingum næstu ára. Fyrirtækið er nú nálægt því að ljúka langtíma endurfjármögnun miðað við núverandi rekstur.