Verðmæti eigna Kaupþings banka jókst að raunvirði um 119 milljarða króna eða um 15% á fyrri helmingi ársins 2010. Þá hefur verið leiðrétt fyrir áhrifum vegna 9% styrkingar á gengi krónunnar á tímabilinu. Nafnvirði heildareigna Kaupþings nemur 2.650 milljörðum króna í lok árshelmingsins en óveðsettar eignir bankans eru metnar á 833 milljarða.
Þetta kemur fram í nýjum fjárhagsupplýsingum í skýrslu fyrir kröfuhafa bankans.
Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings, segir í tilkynningu til kröfuhafa: „Við erum ánægð með árangurinn á árinu. Skilanefnd Kaupþings hefur haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð var í október 2008: Að styðja við eignir þar til markaðsaðstæður yrðu hagstæðari eða viðunandi verð fengist fyrir þær eða eftir atvikum bíða eftir efndatíma á útistandandi lánum. Lánasafnið er nú komið í gott horf og við búumst við betri endurheimtum en áður. Jafnframt er mikil virðisaukning í þeim erlendu félögum sem við höfum endurskipulagt.“
Virði lánasafns aukist um 18 milljarða og dótturfélaga um 23 milljarða
Helstu breytingar á verðmæti eignasafnsins má rekja til aukningar á verðmæti eignarhluta bankans í ýmsum félögum sem hefur frá áramótum aukist um tæplega 34 milljarða króna. Þá hefur virði dótturfélaga aukist um 23 milljarða króna og virði lánasafns bankans hækkað um 18 milljarða króna.
Stór hluti lánasafns Kaupþings var endurskipulagður á árunum 2008 og 2009 og má m.a. rekja hækkun á virði lánasafns bankans og breytingar á virði félaga í eigu bankans til þess. Skilanefnd Kaupþings býst við hærra endurgreiðsluhlutfalli á lánasafninu en áður, samkvæmt upplýsingum til kröfuhafa.
Þóknanatekjur af lánasafni bankans námu rúmum 800 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þær tekjur standa straum af nær öllum rekstrarkostnaði Kaupþings utan aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, þ.e. launum, húsaleigu og öðrum kostnaði. Þóknanatekjur á árinu 2009 voru um 1.300 milljónir króna.
435 milljónir í skattgreiðslur til ríkisins
Heildarkostnaður við rekstur Kaupþings banka á fyrstu sex mánuðum ársins var 3,7 milljarðar króna sem er 0.28% af virði heildareigna. Þar af renna 435 milljónir króna í skattgreiðslur til ríkissjóðs sem samsvarar 12% af heildarkostnaði. Stærstur hluti kostnaðarins, eða 74%, er til kominn vegna aðkeyptrar sérfræðiráðgjafar sem nam rúmum 2,7 milljörðum króna. Helstu útgjöld koma til vegna erlendra fjármálaráðgjafa bankans, vinnu við endurheimtuaðgerðir erlendis og uppgjör á afleiðusafni bankans.
Handbært fé 195 milljarðar króna
Handbært fé Kaupþings banka stóð í 195 milljörðum króna þann 30. júní og jókst um 19 milljarða frá síðustu áramótum. Að auki greiddi skilanefnd Kaupþings á árunum 2008 og 2009 um 130 milljarða króna til innstæðueigenda hjá útibúum Kaupþings í Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Austurríki og gerði þannig upp allar innstæður í útibúum bankans erlendis.