Danska stofnunin Finansiel Stabiletet mun taka yfir rekstur Eikar banka klukkan ellefu í kvöld að dönskum tíma. Upphaflega átti færeyski bankinn að hafa frest til klukkan sex í dag, en sá frestur var framlengdur um fimm tíma. Það mun þó engu skipta varðandi úrslit málsins.
Átti bankinn að afla sér samtals 40 til 50 milljarða íslenskra króna í nýtt eigið fé áður en fresturinn rann út, en það hefur ekki gengið.
Á heimasíðu Eikar segir, að öll innlán séu tryggð og bankinn muni starfa áfram.
Þessi málalok hafa legið í loftinu frá því fyrr í dag, þegar greint var frá því að danska fjármálaeftirlitið hefði hafnað hugmyndum Færeyinga um að skipta bankanum í tvennt. Átti fjármálaeftirlitið þá að taka yfir danska part bankans, en sá færeyski átti að fá að halda áfram starfsemi. Eins og áður segir hafnaði eftirlitið þessari hugmynd og má þá segja að örlög bankans hafi ráðist.
Eik Banki hefur átt í alvarlegum fjárhagsvanda frá hruni og hafa fjárfestingar bankans á svokölluðum pantmarkaði í Danmörku reynst honum þungur baggi. Keypti hann töluvert af veðskuldabréfum, meðal annars á verslanamiðstöðvar og annað atvinnuhúsnæði og hefur tapað umtalsverðum fjárhæðum á þeim viðskiptum.