Bankamenn fimmtungi of margir

Jafet telur að fækka þurfi starfsmönnum bankakerfisins.
Jafet telur að fækka þurfi starfsmönnum bankakerfisins. Rax / Ragnar Axelsson

Starfsmenn íslenska bankakerfisins eru um fimmtungi of margir að mati Jafets Ólafssonar, framkvæmdastjóra fjárfestingafélagsins Veigurs. Jafet segir samruna bankakerfisins hafa gengið hægar eftir hrun en hann vænti. Um 4.300 manns vinna í bankakerfinu og telur Jafet því um 3.500 starfsmenn duga.

Tölurnar yfir fjölda starfsmanna fjármálafyrirtækja eru fengnar hjá Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja en þeim hefur fækkað um 1.600 frá hruni er þeir voru hátt í 6.000 þegar mest lét. 

Jafet er þeirrar hyggju að bankakerfið hafi verið orðið alltof stórt fyrir Ísland.

„Sameiningar í bankakerfinu eru ekki að koma fram. Það eina sem hefur heyrst er að bankastjóri Landsbankans hefur lýst því yfir að það væri gráupplagt að sameina Byr og Landsbankann. Nú fer ríkið með yfirráð yfir báðum bönkum og hefði því mikil tök á að beita sér fyrir hagræðingu í bankakerfinu.

Ég hélt að bankakerfið ætti að vera sniðið að heimamarkaðnum. Síðan var það upplýst í fréttum að Arion banki hafði lýst yfir vilja til að koma að Eik bankanum. Mér fannst það dálítið athyglisvert. Ég hélt að menn hefðu nóg með sig heima,“ segir Jafet sem fór yfir stöðuna á fjármálamarkaðnum í þættinum Hrafnaþing á ÍNN í gærkvöldi.

Gæti minnkað meira

„Við þurfum ekki svona stórt bankakerfi eins og það sem blés út. Það hefur aðeins dregist saman en samt tel ég það vera of stórt fyrir þennan íslenska markað sem það starfar á. Kerfið er of stórt miðað við umsvifin. Þú sérð það þegar þú kemur inn í bankaútibú að það er mjög vel mannað en að sama skapi frekar rólegt um að litast. Það mætti vel ná fram 20% hagræðingu í bankakerfinu með sameiningu útibúa og öðrum aðgerðum. Það að vera með þrjá stóra viðskiptabanka og svo sparisjóðakerfi við hliðina á þeim finnst mér einfaldlega of mikið fyrir þennan markað sem við erum að starfa á,“ segir Jafet sem telur sem fyrr segir að fækka megi starfsmönnum bankakerfisins um sama hlutfall. 

Lítið af kauptækifærum

Aðspurður hvort mikið sé af kauptækifærum á markaðnum svarar Jafet afdráttarlaust nei. Lítið af góðum fyrirtækjum séu til sölu.

„Það er að koma. Þetta er spurning um að koma sér í röðina. Hlutabréfamarkaðurinn er nánast dauður - þar er aðeins að finna Marel og Össur - en ég er vonast til að viðskipti með Icelandair og jafnvel Nýherja fari að glæðast eftir fjárhagslega endurskipulagningu þessara fyrirtækja.“

Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri fjárfestingasfélagsins Veigurs.
Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri fjárfestingasfélagsins Veigurs. Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK