Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office, er að ljúka rannsókn á hruni Kaupþings í Bretlandi. Það kemur því fljótlega í ljós hvort gefnar verða út ákærur í málinu. Þetta kemur fram í breska blaðinu Mail on Sunday.
Efnahagsbrotadeildin hefur átt samvinnu við embætti sérstaks saksóknar á Íslandi á falli Kaupþings. Rannsóknin snýr m.a. að lánveitingum til tiltekinna viðskiptavina bankans sem keyptu hlutabréf í bankanum. Einnig er verið að rannsaka hvort valdir viðskiptavinir áttu kost á að færa fjármuni úr bankanum með óeðlilegum hætti skömmu fyrir hrun.