Eftirlitsnefnd um sérstaka skuldaaðlögun hefur engar staðfestar upplýsingar um að erlendir aðilar hafi óskað eftir að „fyrrverandi eigendur“ kæmu að endurreisn fyrirtækja hér á landi.
Í skýrslu eftirlitsnefndar er fjallað um „orðsporsáhættu“ fyrirtækis og fjármálafyrirtækis af fjárhagslegri endurskipulagningu. Dæmi voru um að bankarnir teldu að það geti skaðað orðspor sitt ef fyrirtæki á landsbyggðinni yrði synjað um fjárhagslega endurskipulagningu.
Bankarnir töldu einnig orðsporsáhættu tengda félögum þar sem „útrásarvíkingar“ koma að rekstri fyrirtækja. Nefndin segir að umfangsmestu málin af þessu tagi séu enn í vinnslu í bankakerfinu og því sé athugun á þeim ekki lokið.
Fram hefur komið í fréttum af fjárhagslegri endurskipulagningu einstakra fyrirtækja, að bankarnir teldu sig hafi verið beittir þrýstingi erlendis frá um að fyrrum eigendur komi áfram að rekstri fyrirtækja.
„Nefndin hefur farið fram á að fá í hendur gögn sem staðfesta fullyrðingar fjármálafyrirtækja um að aðilar hérlendis og erlendis sem hafa veruleg áhrif á endurheimtu möguleika fjármálafyrirtækja og hafi farið fram á að „fyrrum eigendur“ kæmu að endurreisn fyrirtækjanna. Nefndin hefur ekkert undir höndum sem staðfestir slíkt eða hrekur. Því getur nefndin ekki lagt mat á hvort fyrirtæki sé lífvænlegt án „fyrrum eiganda“,“ segir í skýrslunni.