Arion banki hefur kært fyrrverandi eigendur Sigurplasts til lögreglu
fyrir misnotkun á fyrirtækinu. Þeir eru grunaðir um að hafa komið undan
hagnaði, og hlunnfarið með því bankann, sem var hluthafi. Greint var frá þessu í fréttum Sjónvarpsins í kvöld.
Tveir fyrrverandi eigendur Sigurplasts sæta nú rannsókn lögreglu, en verið er að kanna hvort þeir hafi misnotað fyrirtækið með saknæmum hætti. Þeir eru grunaðir um að hafa komið undan hagnaði. Annar þeirra veðsetti hlut sinn í Sigurplasti í tveimur bönkum.
Eigendurnir keyptu fyrirtækið árið 2007 en Arion banki eignaðist síðar þriðjungshlut. Lögmaður fyrirtækisins kvartaði undan framgöngu Arion banka í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins og sakaði bankann um að ætla að keyra fyrirtækið í þrot, en Sigurplast skuldar bankanum á annan milljarð króna.
Bankinn gaf það út, að hann treysti sér ekki til að starfa með eigendum fyrirtækisins, og var það tekið til gjaldþrotaskipta í lok september að ósk eigenda.
Samkvæmt heimildum fréttastofu Sjónvarpsins er tregða bankans tilkomin vegna gruns um meiriháttar misnotkun fyrrverandi eigenda á fyrirtækinu. Þeir hafi hætt innflutningsstarfsemi fyrirtækisins, og flutt yfir í annað félag á þeirra vegum, til að koma undan hagnaði. Hlutfall innflutnings í starfsemi Sigurplasts minnkaði úr 50% árið 2009 í nánast ekkert í ár.