Upplýsingafulltrúi Arion banka vill koma á framfæri að SMS smásölukeðjan í Færeyjum er ekki skuldlaus, eins og fram kom í svari hans til Morgunblaðsins og birtist í frétt Viðskiptablaðsins í dag. Upplýsingafulltrúinn segist hafa talið spurninguna eingöngu ná til hinna félaganna sem Jóhannes Jónsson kaupir úr Högum.
Sem kunnugt er hefur Jóhannes Jónsson gert samkomulag við bankann um að kaupa tískuvöruverslanirnar All Saints og Zara og SMS-keðjuna út úr Högum. Samkvæmt ársreikningi SMS fyrir árið 2009 eru langtímaskuldir félagsins 21 milljón danskra króna. Hagar eiga helmingshlut, sem Jóhannes eignast með ofangreindum viðskiptum.