Gengi hlutabréfa bandaríska tölvuframleiðandans IBM hefur ekki verið hærra frá því þau voru skráð í kauphöllinni á Wall Street árið 1915. Bréfin hækkuðu um 0,6% í viðskiptum í gær og er gengið 138,72 dalir. Gamla metið var sett í júlí árið 1999, en það var 137,88 dalir.
Fjárfestar virðast hafa trú á, að fyrirtæki muni á næstunni fjárfesta í nýrri tækni, sem muni koma tæknifyrirtækjum til góða. Sérfræðingar hafa almennt mælt með kaupum á bréfum IBM. Markaðsvirði fyrirtækisins er nærri 175 milljarðar dala, jafnvirði 19.400 milljarða króna.
Frá því Sam Palmisano tók við sem forstjóri IBM árið 2002 hefur gengi bréfa fyrirtækisins hækkað um þriðjung. Palmisano hefur breytt markaðsstefnu IBM og lagt meiri áherslu á þjónustu og hugbúnað.