Norskir fjölmiðlar segja frá því, að norski athafnamaðurinn Kjell Inge Røkke og Anne Grete Eidsvigs, eiginkona hans, hafi látið fjárfestingarfélag sitt greiða sér út 705 milljónir norskra króna, jafnvirði 13,5 milljarða íslenskra króna, síðastliðinn mánudag.
Fram kemur á viðskiptavefnum e24.no, að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem þau hjón hafi tekið fé með þessum hætti út úr fjárfestingarfélagi sínu. Árið 2008 tók Røkke þannig út 441 milljón norskra króna og í fyrra 552 milljónir. Samtals hafa hjónin því fengið 1,7 milljarða norska króna, tæpa 33 milljarða íslenskra króna, greidda á þremur árum.
Vefurinn segir að Røkke og kona hans séu að byggja sér nýtt hús í Konglunden í Asker, skammt frá Ósló. Raunar er um að ræða þrjú hús, samtals 920 fermetrar, sem eru tengd saman með kjallara sem er 1951 fermetri að stærð.
Í húsinu á að vera líkamsræktarstöð, kvikmyndasalur, vínkjallari og bílskúr sem rúmar 13 bíla. Einnig verður þar bílaþvottastöð og tennisvöllur. Húsið stendur við strönd og hefur Røkke látið búa til kletta við ströndina úr handfægðum graníthellum.
E24.no segir, að Røkke sé einnig að láta smíða fyrir sig seglbát, 66 metra langan og 6 metra breiðan með 86 metra hátt siglutré. Þá hafi hann sjálfur lýst því yfir, að hann eyði 70 þúsund norskum krónum daglega, 1,3 milljónum íslenskra króna, í knattspyrnuliðið Molde.