Lífeyrissjóður auglýsir eftir framkvæmdastjóra

Stjórn lífeyrissjóðs verkfræðinga auglýsir í Morgunblaðinu í dag eftir öflugum framkvæmdastjóra. Leitað er að talnaglöggum stjórnanda með ríka ábyrgðartilfinningu í þetta mikilvæga starf. Líkt og fram hefur komið hefur þurft að skerða lífeyrisréttindi sjóðsfélaga á einu og hálfu ári um 27%.

Óska eftir ábyrgð í vali á fjárfestingum

Meðal helstu verkefna nýs framkvæmdastjóra, samkvæmt auglýsingunni í dag, er ábyrgð á vali fjárfestingakosta og fjárfestingum.

Í umfjöllun Morgunblaðsins nýverið um málefni lífeyrissjóðs verkfræðinga kom fram að ekki hefur enn náðst að skapa jafnvægi milli eigna og skuldbindinga og því er allt eins líklegt að skerða verði réttindin enn frekar. Bjarki Brynjarsson, stjórnarformaður sjóðsins, segir umhverfi lífeyrissjóðanna erfitt og fáir góðir fjárfestingarkostir í boði.

Um 300 manns mættu á aukaaðalfund sjóðsins nýverið. Þar var samþykkt að skerða réttindi sjóðsfélaga um 5%. Áður höfðu réttindin tvívegis verið skert um 10%. Á fundinum voru einnig fjórir nýir menn kjörnir í stjórn. Allir stjórnarmenn eru því nýir, en Bjarki Brynjarsson, stjórnarformaður sjóðsins, kom nýr inn í stjórn á aðalfundi sjóðsins í vor.

Rannsaka fjárfestingastefnu lífeyrissjóða

Á aukaaðalfundinum kom fram að nefnd á vegum landssamtaka lífeyrissjóða væri að rannsaka framkvæmd fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða í aðdraganda hrunsins.  Jafnframt mun ný stjórn taka ákvörðun um hvort rétt sé að fram fari sérstök rannsókn á fjárfestingarákvörðunum sjóðsins undanfarin ár.

Tapaði 10 milljörðum á hruninu

Bjarki sagði að lífeyrissjóðurinn hefði tapað 10 milljörðum á hruninu. Heildareignir sjóðsins eru núna um 30 milljarðar. Hann sagði að útreikningur á tapinu færi m.a. eftir því hvernig menn reiknuðu stöðu gengis krónunnar og hvort menn reiknuðu inn í dæmið tapaðan hagnað af fjárfestingum.

Um síðustu áramót var 14,8% munur á eignum og skuldbindingum sjóðsins. Stjórn sjóðsins vinnur eftir áætlun sem gerir ráð fyrir að staða sjóðsins hafi náð jafnvægi 2013. Bjarki sagði að tryggingafræðileg staða væri háð mörgum þáttum eins og ávöxtun, lífaldri og réttindaávinnslu.

Þorbergur Steinn Leifsson verkfræðingur hefur gagnrýnt hvernig stjórnendur Lífeyrissjóðs verkfræðinga hafa haldið á málum. Sjóðurinn hafi tapað mest allra lífeyrissjóða. Hann hefur reiknað út að sjóðurinn hafi tapað 16,7 milljörðum frá hruni. Hann miðar þá við 3,5% ávöxtunarkröfu og að gengi evru sé 140 kr. Þorbergur gagnrýnir sérstaklega að sjóðurinn skuli hafa selt erlendar eignir sjóðsins í mars 2008. Tjónið hefði ekki orðið eins mikið ef þetta hefði verið látið ógert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK