Glitni hefur ekki tekist að sýna fram á að dómstólar í New York hafi lögsögu yfir Pálma Haraldssyni, þrátt fyrir að hafa haft aðgang að öllum skjölum Glitnis og Fons. Þetta kemur fram í svarbréfi Pálma til dómstóla í New York. Því sé jafnframt haldið fram að Pálmi hafi stjórnað Fons, en á það er ekki fallist í yfirlýsingu hans.
Talað er um að Fons hafi verið „undir meintri stjórn“ Pálma.
Pálmi er einn þeirra sem slitastjórn Glitnis hefur stefnt fyrir að hafa látið „greipar sópa“ um bankann með skipulegum hætti í aðdraganda falls hans. Þessu hafa hin stefndu öll hafnað.
Í bréfi Pálma er látið að því liggja að framferði Glitnis, sem hluthafa í Icelandair, sé óviðeigandi vegna þess að Pálmi sé eigandi helsta samkeppnisaðilans, Iceland Express.
Í svari Pálma segir að kæra slitastjórnar Glitnis í New York sé ekkert annað en „veiðiferð“ sem farin sé í því skyni að afla upplýsinga sem nota eigi annars staðar í framhaldinu. Lagt sé upp úr því að nota þann tíma sem slitastjórnin hefur þar til frávísunarkrafa verður tekin fyrir til þess að afla þessara gagna.
Í bréfinu er farið fram á það að Pálma sé hlíft við frekari gagnaöflun slitastjórnar Glitnis, og honum þannig hlíft við „áreiti“ og beiðni um gögn sem séu málinu „óviðkomandi.“ Væri grundvöllur fyrir lögsókn í New York til staðar hefðu gögn því til stuðnings þegar komið fram.