Sænsk stjórnvöld birtu nýja hagvaxtarspá í dag. Hefur spá um hagvöxt í ár verið hækkuð úr 4,5% í 4,8% en spá fyrir næsta ár lækkar úr 4% í 3,7%.
Í tilkynningu sænska fjármálaráðuneytisins segir, að Svíar hafi komist betur frá fjármálakreppunni en flestar aðrar þjóðir og útlit sé fyrir að batinn verði hraðari en áður var talið. Hins vegar sé mikil óvissa um þróun mála á næstu misserum og miklir erfiðleikar í ríkisfjármálum annarra Evrópuríkja kunni að hafa áhrif á sænska hagkerfið.
Nýja hagspáin gerir ráð fyrir 8,4% atvinnuleysi í ár og 8% á næsta ári en lækki síðan smám saman og verði 6% árið 2014.