Erfiðleikar í atvinnulífinu endurspeglast skýrt í mati stjórnenda fyrirtækja á stöðu og horfum í ársfjórðungslegri könnun Capacent meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Samkvæmt nýrri könnun, sem gerð var í september, telja 80% stjórnenda aðstæður slæmar, 20% að þær séu hvorki góðar né slæmar en enginn að þær séu góðar.
Þetta er svipuð niðurstaða og í fyrri könnunum á árinu þar sem fram hefur komið að 80-90% svarenda telja aðstæður í efnahagslífinu slæmar.
Þeim fer fækkandi sem telja að aðstæður verði betri eftir 6 mánuði.
Um 20% svarenda sjá fram á betri tíma eftir 6 mánuði, en í júní sl. var hlutfallið 31% Á hinn bóginn telja nú 29% að ástandið eigi eftir að versna samanborið við 28% í júní sl. Svartsýnin er mun meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt frétt á vef Samtaka atvinnulífsins.
45% stjórnenda telja að aðstæður verði betri að ári liðnu samanborið við 53% í mars sl. Þetta er lakari niðurstaða en mælst hefur frá því fyrir efnahagshrunið haustið 2008.
Stjórnendur á landsbyggðinni eru einnig svarsýnni en starfsfélagar þeirra á höfuðborgarsvæðinu sem markast mjög af væntingum stjórnenda í sjávarútvegi.
25% ætla að fækka starfsfólki
Líkt og í fyrri könnunum telja nær allir aðspurðra sig hafa nægt starfsfólk og einungis 8% búa við skort á starfsfólki. Ráðningaráform stjórnenda benda til þess að það syrti í álinn á næstu 6 mánuðum þar sem 25% þeirra hyggjast fækka starfsmönnum en 17% fjölga. Þetta er nánast sama niðurstaða og var fyrir ári síðan.
Verst er ástandið í byggingarstarfsemi og iðnaði þar sem um 40% fyrirtækja sjá fram á fækkun starfa. Þriðjungur fyrirtækja í sérhæfðri þjónustu gera hins vegar ráð fyrir að fjölga störfum. Mikill meirihluti fyrirtækja býr við vannýtta framleiðslugetu þar sem 70% þeirra telja ekkert vandamál að bregðast við óvæntri eftirspurn eða sölu. Nánast allir svarendur búast við því að þetta ástand verði viðvarandi næstu 6 mánuði. Þetta er svipuð niðurstaða og verið hefur síðustu tvö ár.
40% búast við verri afkomu en í fyrra
Varðandi afkomu fyrirtækja þá reikna 40% stjórnenda með minni hagnaði á þessu ári en í fyrra en rúmur fjórðungur (27%) reiknar með betri afkomu. Fleiri stjórnendur á landsbyggðinni (48%) en á höfuðborgarsvæðinu (36%) gera ráð fyrir minni hagnaði í ár. Búist er við lakari afkomu á næstunni þar sem 35% stjórnenda telja að framlegð (EBITDA) fyrirtækisins muni minnka á næstu 6 mánuðum en 23% að hún muni vaxa.
Varðandi eftirspurn þá telur þriðjungur stjórnenda að velta
fyrirtækisins aukist á þessu ári en heldur færri (29%) að hún minnki. Að
meðaltali er velta talin aukast um 3,2% í krónum talið milli áranna
2009 og 2010. Sama gildir um innlenda eftirspurn eftir vörum
fyrirtækisins þar sem heldur fleiri (25%) telja að eftirspurnin aukist
en að hún minnki (20%).
Þegar kemur að launaþróun þá telja 45% stjórnenda að laun muni hækka á næstu 6 mánuðum og rúmur helmingur (52%) að þau muni standa í stað. Samanvegið reikna stjórnendur með að laun hækki um 1,4% að meðaltali á næstu 6 mánuðum. Í flestum atvinnugreinum er reiknað með hækkunum á bilinu 1-1,5%, nema í byggingariðnaði þar sem ekki er reiknað með neinum hækkunum. Lítill munur er á höfuðborgarsvæði og landsbyggð eða eftir því hvort fyrirtækin selji vörur til útlanda eða ekki.
62% stjórnenda telja að laun starfsmanna hækki á milli áranna 2009 og 2010 en 31% að laun standi í stað. Að meðaltali telja stjórnendur að laun hækki um 1,8% milli áranna 2009 og 2010.
Gera ráð fyrir aukinni verðbólgu og að gengi krónunnar styrkistStjórnendur telja að stýrivextir Seðlabankans fari áfram lækkandi og verði komnir í 5% eftir 12 mánuði. Þá telja þeir að vísitala neysluverðs muni hækka um 4% á næstu 12 mánuðum. Afstaða stjórnenda er svipuð þegar spurt erum hvort vísitala neysluverðs muni hækka eða lækka á næstu 2 árum.
Tæpur helmingur (46%) stjórnenda telur að gengi íslensku krónunnar muni styrkjast á næstu 12 mánuðum, 20% þeirra telja að það muni veikjast en þriðjungur (34%) telja að gengið haldist óbreytt. Ekki er þó taldar líkur á mikilli styrkingu, eða að meðaltali um 2%.