Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke, ýtti enn undir væntingar um að frekari peningaprentun og slökun á peningastefnu væri í burðarliðnum í ræðu sem hann hélt í dag.
Sagði hann að mæld verðbólga væri nú um eitt prósent í Bandaríkjunum, en að mati seðlabankans ætti hún að vera í kringum tvö prósent.
Er nú almennt gert ráð fyrir því að bandaríski seðlabankinn muni dæla meira reiðufé inn á markaði með kaupum á ríkisskuldabréfum og öðrum eignum fjármálastofnana í þeirri von að það hleypi nýju lífi í markaði.
Orðalag Bernanke vakti hins vegar athygli margra, því formlega séð hefur bandaríski seðlabankinn ekki verðbólgumarkmið í huga þegar kemur að vaxtaákvörðunum sínum. Margir stjórnmálamenn, þar á meðal formaður fjármálaþjónustunefndar fulltrúadeildar bandaríska þingsins, Barney Frank, hafa verið mjög á móti upptöku verðbólgumarkmiðs hjá bankanum.
Dollarinn fellur í verði
Bernanke sagði að ólíklegt væri nú að hagvöxtur yrði mikill á næsta ári og því væri auðvelt að slaka enn meira á peningamálastefnunni, einkum í ljósi þess hve verðbólga væri lítil nú.
Bandaríkjadalur hefur lækkað mjög gagnvart öðrum myntum undanfarnar vikur og er það einkum talið vera vegna ótta fjárfesta við frekari peningaprentun og verðbólgu í framtíðinni. Þá hefur verð á gulli og öðrum fastafjármunum hækkað af sömu ástæðum.