Breska blaðið Sunday Telegraph segir í kvöld, að Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjórn Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður, séu enn að íhuga hvort þeir fallist á að greiða breska fjármálaeftirlitinu 35 þúsund punda sekt hvor, rúmar 6,2 milljónir króna, fyrir brot gegn tilkynningaskyldu.
Telegraph segir hins vegar að líklega muni þeir Hreiðar Már og Sigurður ekki samþykkja að greiða þessa sekt og hefur eftir ónafngreindum heimildarmanni, að þeir telji sig ekki hafa brotið neinar reglur.
Hreiðar Már sagði raunar í bréfi til íslenskra stjórnvalda í september, að hann muni ekki fallast á þessa sátt heldur leitast við að fá það afdráttarlaust viðurkennt að hann hafi ekki brotið af sér á nokkurn hátt í störfum sínum fyrir bankann í Bretlandi.
Blaðið segir, að breska fjármálaeftirlitið hafi alltaf neitað að staðfesta að það sé að rannsaka starfsemi Singer & Friedlander, bresks dótturfélags Kaupþings, sem var sett í greiðslustöðvun í október 2008. En stofnunin muni hafa átt í viðræðum við þá Sigurð og Hreiðar má um að þeir greiði sektina án þess að viðurkenna neina sök og þar með fái þeir friðhelgi gagnvart frekari rannsókn.
Hreiðar Már sagði í bréfinu til íslenskra stjórnvalda, að breska fjármálaeftirlitið telji að stjórnendum Kaupþings hafi borið skylda til að upplýsa bresku stofnunina þremur dögum fyrr en gert var um versnandi lausafjárstöðu móðurfélagsins og þrengingar sem blöstu við íslenskum bönkum í kjölfar yfirtöku íslenska ríkisins á Glitni banka í lok september 2008.
Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar er að rannsaka starfsemi Kaupþings í Bretlandi vegna ásakana um markaðsmisnotkun og gríðarlegar lánveitingar til helstu hluthafa bankans.
Sunday Telegraph hefur eftir Tony Shearer, sem var forstjóri Singer & Friedlander þegar Kaupþing keypti bankann árið 2006, að það sé skelfilegt að þeir Hreiðar Már og Sigurður eigi að sleppa með 35 þúsund punda sekt á sama tíma og innistæðueigendur í bankanum hafi ekki enn fengið fé sitt til baka.
Þá sé það einnig óréttlátt, að fjármálaeftirlitið fái fé frá stjórnendum Kaupþings í ljósi þess, að stofnunin hafi ekki getað stöðvað starfsemi bankans áður en í óefni var komið.
Sigurður Einarsson vildi ekki tjá sig um málið við Telegraph og blaðið náði ekki tal af Hreiðari Má.