Vestia-félögin með mikið tap

Samanlagt tap þeirra fjögurra félaga, sem fylgdu með í kaupum Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna á eignaumsýslufélaginu Vestia, nam 884 milljónum króna í fyrra og um 70,8 milljörðum króna árið 2008.

Framtakssjóðurinn keypti Vestia á 19,8 milljarða króna, en ekki fylgdu öll fyrirtæki Vestia með í kaupunum. Þau fyrirtæki sem sjóðurinn eignaðist eru Icelandic Group, Húsasmiðjan, Plastprent og 62 prósenta hlutur í Teymi, en meðal dótturfyrirtækja Teymis eru Vodafone, Skýrr, EJS og HugurAx.

Icelandic var eina fyrirtækið sem skilaði hagnaði í fyrra, eða um 6,2 milljónum evra, sem jafngildir um 957 milljónum króna á gengi dagsins í dag. Húsasmiðjan tapaði hins vegar 842 milljónum, Plastprent 458 milljónum og Teymi 542 milljónum króna.

Skuldir fyrirtækjanna nema samtals 58,2 milljörðum króna og eignirnar um 90,1 milljarði, samkvæmt ársreikningum fyrir árið 2009. Tvö fyrirtækjanna skera sig hins vegar úr hvað varðar eiginfjárstöðu. Eigið fé Plastprents er neikvætt um 153,3 milljónir króna, sem þýðir að skuldir eru meiri en eignir. Þá eru skuldir Húsasmiðjunnar rúmir sex milljarðar en eigið fé 583 milljónir og eiginfjárhlutfall því um 8,8 prósent.

Eiginfjárhlutfall Teymis og Icelandic er hins vegar mun betra. Skuldir Icelandic eru 299 milljónir evra og eigið fé 142,5 milljónir. Þar af eru 63,4 milljónir evra svokallaðar óefnislegar eignir, að stærstum hluta viðskiptavild. Að henni slepptri er eiginfjárhlutfall Icelandic um 22,3 prósent í stað 32,3 prósenta.

Skuldir Teymis eru tæpir sex milljarðar króna og eignir um 12,9 milljarðar. Eigið fé er því tæpir sjö milljarðar króna og eiginfjárhlutfall um 54 prósent. Nær allt eigið fé Teymis er hlutafé og óefnislegar eignir sáralitlar.

Erfitt er að meta hvert raunverulegt virði félaga eins og þessara er og hvort Fjárfestingarsjóðurinn gerði góð kaup þegar hann keypti Vestia á 19,8 milljarða króna. Eins og sést á þessari yfirferð eru eignirnar hins vegar afar misgóðar miðað við ársreikninga og koma mun í ljós hvort hinn nýi eigandi mun þurfa að veita þeim aukið fé áður en hægt verður að selja þau, hvenær sem það verður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka