„Bankar greiði fyrir banka"

Íslenska ríkið bjargaði öllum þremur stóru viðskiptabönkunum á Íslandi haustið …
Íslenska ríkið bjargaði öllum þremur stóru viðskiptabönkunum á Íslandi haustið 2008

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins óskaði eftir því í dag að kerfi yrði sett á laggirnar sem gerir bönkum í vanda kleift að fara í þrot án þess stefna fjármálakerfinu í tvísýnu og neyða skattgreiðendur til þess að bjarga þeim.

Michel Barnier, sem fer með málefni innri markaða hjá framkvæmdastjórninni, segir að þetta sé gríðarlega mikilvægt því eitt af því sem hefur verið harðlega gagnrýnt er að skattgreiðendur hafi þurft að  bera byrðarnar af hruni bankanna. 

Koma verður í veg fyrir að skuldabyrðin lendi á skattgreiðendum

„Ég er harðákveðinn í því að gera allt sem í mínu valdi stendur, í nafni framkvæmdastjórnarinnar og Evrópu, að koma í veg fyrir að skattgreiðendur þurfi aftur að greiða fyrir bankana," sagði Barnier á blaðamannafundi í dag.

Ríkisstjórnir í Evrópu og Bandaríkjunum þurftu að greiða háar fjárhæðir af almannafé til þess að bjarga stórum bönkum og til að koma í veg fyrir allsherjar hruni geirans þegar fjármálakreppan skall á árið 2008.

Enginn banki á að vera of stór til þess að falla

Barnier segir að í framtíðinni eigi að leyfa illa stöddum bönkum að fara í þrot.

„Við verðum að tryggja að þeir geti gert það án þess að taka allt fjármálakerfið með sér eða eiga á hættu að skattgreiðendur þurfi að greiða kostnaðinn," segir hann og bætir við „Enginn banki á að vera of stór til þess að falla né þannig tengdur að hann geti ekki fallið."

Þess vegna þurfi skýran lagaramma sem tryggi það að stjórnvöld ríkja Evrópu séu undir það búin að takast á við banka sem lendir í erfiðleikum og við gjaldþrot banka.

Framkvæmdastjórn ESB hefur hug á að auka völd fjármálaeftirlita hvers ríkis fyrir sig með því að veita þeim vald til þess að krefjast þess að fjármálafyrirtæki skipti um stjórnendur eða svipta þá heimild til þess að taka þátt í áhættusömum hlutum.

Jafnframt verði fjármálaeftirlitum gert mögulegt að undirbúa yfirtöku á gjaldþrota bönkum meðal annars með því að færa starfsemi þeirra yfir í einskonar „brúarbanka" til þess að tryggja að starfsemi þeirra raskist ekki.

Til þess að fjármagna þessar breytingar leggur Barnier til að komið verði á björgunarneti seðlabanka sem væri fjármagnað af bönkunum sjálfum.

„Björgun fjármálakerfisins hafði mjög alvarlegar afleiðingar fjárhagslega, með tilheyrandi skuldum sem greiddar voru af almenningi," segir Barnier. „Bankar verða að greiða fyrir banka."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK