Rekstrartap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og mbl.is, nam 667 milljónum króna í fyrra, að því er fram kemur í ársreikningi félagsins. Rekstrartap að viðbættum fjármagnsgjöldum nam tæpum 1,4 milljörðum. Rekstrartekjur námu 2,7 milljörðum á árinu og drógust saman um einn milljarð á milli ára. Þrátt fyrir rekstrartapið skilaði félag hagnaði upp á 2,5 milljarða en það markast fyrst og fremst af niðurfærslu lána upp á 4,7 milljarða. Þegar nýir fjárfestar komu að félaginu var það endurfjármagnað og samhliða því var gert samkomulag við lánardrottna um niðurfellingu hluta eldri skulda sem svo er tekjufærð í reikningnum.
Sjá má af uppgjörinu að rekstrarárið hafi einkennst af aðhaldi samhliða minni tekjum. Þannig minnkaði launakostnaður um hálfan milljarð milli ára og heildarútgjöld drógust saman um 1,5 milljarða. Árvakur skuldaði um 2,3 milljarða í árslok 2009. Eigið fé félagsins var 776 milljónir.
Að sögn Óskars Magnússonar, útgefanda, var árið 2009 óvenjulegt hvað rekstrarumhverfi varðar. Reksturinn var endurskipulagður, dagblaðið 24 stundir var lagt niður og áhrifa þess gætir í uppgjöri ársins.