Engar hagtölur benda til þess að hagvöxtur hafi farið á stað á síðari helming ársins. Þetta kom fram í ræðu Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, á fundi Íslensk-ameríska verslunarráðsins í New York. Már sagði að vísbendingar væru þó um að viðsnúningur hagkerfisins væri hafin en hinsvegar er hann hvorki kröftugur né mikill.
Í ræðunni sagði Már að endurskipulagning skulda einkageirans væri forsenda kraftmikils hagvaxtar samhliða aukinni fjárfestingu. Sem kunnugt er á þá er fjárfesting í íslenska hagkerfinu í sögulegu lágmarki. Til þess að auka fjárfestingu þurfi að draga úr óvissu um rekstrarumhverfi fyrirtækja og að sama skapi kæmi sér vel fyrir hagkerfið ef hægt væri að auka erlenda fjárfestingu.