Launavísitala hækkaði um 0,3% í september, samkvæmt útreikningum Hagstofu, og hefur hækkað um 6% undanfarna tólf mánuði. Vísitala kaupmáttar launa í september hækkaði um 0,3% frá fyrri mánuði og hefur hækkað um 2,2% síðustu 12 mánuði.
Vísitala kaupmáttar, sem Hagstofan reiknar út, er samspil vísitölu launa og vísitölu neysluverðs. Frá janúar 2008 hefur vísitalan fimm sinnum hækkað milli mánaða, í júlí og nóvember á síðasta ári, og síðan nú í júlí, ágúst og september.