Hagnaður, að upphæð 132 milljónir króna, er af rekstri Nýherja það sem af er árinu en á sama tímabili í fyrra var 178 milljóna króna tap á rekstrinum. Hagnaður á þriðja ársfjórðungi nam tæpum 27 milljónum samanborið við 121 milljónar króna tap á sama tímabili 2009.
Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, segir í tilkynningu að mjög jákvæð þróun hafi verið í rekstri Nýherja og innlendra dótturfélaga á árinu. Eftirspurn eftir tölvu- og tæknibúnaði hefur aukist og sé sala umfram áætlanir. Eftir umtalsverða fækkun sérfræðinga á sviði hugbúnaðar hafi náðst jafnvægi við eftirspurn eftir hugbúnaðarþjónustu innanlands og skili sú starfsemi nú hagnaði.
Fram kemur í tilkynningunni, að sala á vöru og þjónustu nam 10.273 milljónum fyrstu 9 mánuði ársins 2010, samanborið við 10.339 milljónir á sama tímabili árið áður. Laun og launatengd gjöld námu 4162 milljónum en voru 4521 milljón fyrir sama tímabil árið áður. Laun vegna erlendrar starfsemi hafa lækkað um 125 milljónir.
Meðalfjöldi stöðugilda fyrstu 9 mánuði ársins 2010 var 565 en var 652 fyrir sama tímabil árið áður. Rekstrarkostnaður var um 1.413 milljónir en var 1826 milljónir yfir sama tímabil í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta var 327 milljónir á tímabilinu en var neikvæður um 9 milljónir árið áður.