Auður I fagfjárfestasjóður ásamt meðfjárfestum koma með nýtt hlutafé og eignast 36% í Ölgerðinni. Samhliða mun Arion banki breyta hluta skulda félagsins í hlutafé og eignast 20% hlut. Andri Þór Guðmundsson, forstjóri og Októ Einarsson, stjórnarformaður ásamt fjórum framkvæmdastjórum Ölgerðarinnar eiga 44% í félaginu eftir endurskipulagningu.
Ölgerðin var stofnað 1913 og þar starfa um 300 starfsmenn. Árið 2007 keyptu Októ Einarsson og Andri Þór Guðmundsson meirihluta í Danól og Ölgerðinni á móti Kaupþingi banka. Fyrirtækin voru sameinuð í kjölfarið. Fjórir framkvæmdastjórar keyptu síðan hlut Kaupþings í sameinuðu félagi.
Í tilkynningu segir, að eftir gengishrun íslensku krónunnar hafi skuldsetning fyrirtækisins verið orðin veruleg byrði á rekstrinum. Þrátt fyrir að öll lán hafi verið í skilum hafi eigið fé neikvætt. Því hófu stjórnendur viðræður við Arion banka um fjárhagslega endurskipulagningu og skuldbreytingu erlendra lána.
Niðurstaða þessara viðræðna eru að samhliða inngreiðslu nýs hlutafjár munu skuldir félagsins lækka úr 9,5 milljörðum í rúma 7,2 milljarða króna og Arion banki eignast 20% hlut í félaginu. Um 75% skulda félagsins voru áður í erlendri mynt en að lokinni endurskipulagningu verða öll lán félagsins í íslenskum krónum.
Hluti endurskipulagningarinnar snýr að fasteignum Ölgerðarinnar sem eru í eigu G7 fasteignafélags. Skuldir G7 fasteignafélags nema 4,6 milljörðum. Félagið var fyrir endurskipulagningu í eigu Ölgerðarinnar, sem átti 51% hlut, og Arion banka, sem átti 49% hlut. Við endurskipulagninguna tekur Arion banki yfir eignarhlut Ölgerðarinnar og eignast þar með allt hlutafé G7 fasteignafélags. Ölgerðin mun leigja fasteignirnar af G7 á markaðskjörum.