Reykjaneshöfn hefur sent Kauphöll Íslands afkomuviðvörun og segist ekki hafa tekist að standa við fjárhagslegar skuldbindingar á þessu ári allt frá 1. maí. Um er að ræða samtals 219 milljónir króna. Einnig sé fyrirséð að stofnunin muni ekki getað staðið skil á greiðslum þann 1. nóvember af skráðum skuldabréfaflokki samtals að fjárhæð 145 milljónir króna.
Um er að ræða skráða verðbréfaflokka auk annarra lána og skuldabréfa sem ekki eru skráð á markaði.
Reykjaneshöfn hefur samið um lán frá Lánasjóð sveitarfélaga að fjárhæð 48 milljónir króna. Lánið er til 14 ára og er tekið til að endurfjármagna afborganir á lánum hafnarinnar í nóvember 2010 hjá Lánasjóðnum. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki bæjarráðs Reykjanesbæjar.
Reykjaneshöfn hefur ráðið fjármálaráðgjafa sér til liðsinnis og stefnt er að því að boða til fundar með lánardrottnum eins fljótt og auðið er.
Í annarri tilkynningu kemur fram, að Reykjanesbær hafi gengið frá láni hjá Lánasjóði sveitarfélaga að upphæð 193 milljónir króna. Lánið sé til 14 ára og tekið til að endurfjármagna afborganir á lánum bæjarins í október 2010 hjá Lánasjóði sveitarfélaga.
Kauphöll Íslands sektaði nýlega Reykjaneshöfn um 1,5 milljónir króna fyrir að brjóta reglur Kauphallarinnar með því að veita ekki upplýsingar um vanskil lána. Var það gert eftir að frétt birtist í Morgunblaðinu um vanskilin. Þá var Reykjanesbær áminntur fyrir að upplýsa ekki Kauphöllina um fjárhagserfiðleika sína.