Heiðar Guðjónsson, kaupsýslumaður, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir að því hafi verið haldið fram í DV undanfarna daga að hann hafi skipulagt árás á íslensku krónuna árið 2007 ásamt alþjóðlegum vogunarsjóðum.
Segir Heiðar að þessar ásakanir byggi á langsóttum rangtúlkunum DV á tölvupóstum hans. Verði þær ekki dregnar til baka eigi hann ekki annars úrkosti en að höfða meiðyrðamál gegn blaðinu.
Heiðar segir í yfirlýsingunni, að hann hafi tapað persónulega miklum fjárhæðum á bankahruninu hér líkt og aðrir samstarfsmenn hans hjá Novator. Þá segir Heiðar, að tímasetning umfjöllunar DV sé án efa ekki tilviljun þar sem hann eigi í lokaviðræðum um möguleg kaup á Sjóvá ásamt hópi fjárfesta.