Þýska undrið gæti orðið reiðarslag fyrir illa stödd evruríki

Þjóðverjar hafa fyllstu ástæðu til þess að kætast yfir efnahagsástandinu …
Þjóðverjar hafa fyllstu ástæðu til þess að kætast yfir efnahagsástandinu um þessar mundir. REUTER

Efnahagsuppgangurinn í Þýskalandi um þessar mundir gæti orðið til þess að Evrópski seðlabankinn hækki stýrivexti fyrr frekar en síðar. Slík vaxtahækkun væri reiðarslag fyrir skuldsett evruríki sem glíma nú við mikinn efnahagsvanda.

 Í nýrri skýrslu matsfyrirtækisins Standard & Poor's er leitt að því líkum að efnahagsuppgangurinn í Þýskalandi myndi þrýsting á stýrivaxtahækkun Evrópska seðlabankans í fyrirsjáanlegri framtíð. Eins og fram kemur í umfjöllun breska blaðsins The Daily Telegraph þá telur matsfyrirtækið yfirgnæfandi líkur á því að seðlabankinn myndi láta undan slíkum þrýstingi og hækka vexti þrátt fyrir að fjölmörg aðildarríki evrusvæðisins glími við djúpstæðan samdrátt og skuldakreppu. S&P spáir því að væntingar um hærri stýrivexti gætu leitt til frekari styrkingar evrunnar á gjaldeyrismörkuðum á næstu 12 mánuðum.

Uppgangurinn í Þýskalandi er fyrst og fremst tilkominn vegna mikillar eftirspurnar nýmarkaðsríkja eftir þýskum iðnaðarvörum og bifreiðum að undanförnu. Þjóðverjar hafa notið sérstaklega góðs af viðvarandi hagvexti í Kína en hlutdeild þýskra fyrirtækja í heildarútflutningi aðildarríkja Evrópusambandsins til Alþýðulýðveldisins nemur 47%.

Við þetta bætist að eftirspurn eftir þýskum útflutningi er ekki sérstaklega háð verðlagningu og því hefur styrking evrunnar á gjaldeyrismörkuðum undanfarin misseri ekki haft mikil áhrif. Fjárfesting í þýska hagkerfinu hefur aukist samhliða vaxandi eftirspurn á alþjóðamörkuðum og vísbendingar eru um að einkaneysla sé tekin að aukast á ný eftir að hafa verið í lítil í fjöldamörg ár. Atvinnuleysi hefur ekki verið minna í Þýskalandi frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar.

Á sama tíma og þessi uppgangur á sér stað í Þýskalandi eru stýrivextir á evrusvæðinu nálægt núlli enda er efnahagsástandið í fjölmörgum aðildarríkjum myntsvæðisins erfitt um þessar mundir. Eins og bent er á í umfjöllun The Telegraph þá minnir ástandið nú um margt hvernig það var við upphaf aldarinnar nema hvað að hlutverkin eru breytt. Þá hélt Evrópski seðlabankinn stýrivöxtum lágum vegna lítils hagvaxtar í Þýskalandi en það fram liðu stundir leiddi lágir vextir til ofhitnunar í hagkerfum ríkja á borð við Spán, Írland og Grikkland.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK