BGE eignarhaldsfélag keypti hlutabréf í Baugi af nokkrum starfsmönnum sínum á árinu 2008 fyrir um 300 milljónir króna. BGE og Baugur eru bæði gjaldþrota og hlutabréfin sem keypt voru eru verðlaus. Um þetta verður fjallað í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.
Í frétt á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, segir að BGE eignarhaldsfélag hafi keypt hlutabréf í Baugi Group af 4-5 starfsmönnum félagsins á um 300 milljónir króna á árinu 2008. Bréfin hafi orðið verðlaus nokkrum mánuðum síðar við gjaldþrot Baugs. Mestu hafi munað um kaup á bréfum Skarphéðins Berg Steinarssonar, fyrrum framkvæmdastjóra hjá Baugi.
Í frétt Viðskiptablaðsins kemur fram að BGE hafi verið sérstaklega stofnað í nóvember 2003 til að halda utan um kaupréttarsamningakerfi starfsmanna Baugs. Kerfið virkaði þannig að Kaupþing lánaði Baugi gegn veði í hlutabréfum félagsins og Baugur lánaði féð síðan áfram til starfsmanna Baugs.