Bandarísk kona, Cheryl Eckard, sem kom upp um umfangsmikil svik í lyfjaverksmiðju breska lyfjaframleiðandans GlaxoSmithKline á Púertó Ríko, fær 96 milljónir dala, jafnvirði nærri 11 milljarða króna, að launum. Lyfjafyrirtækið hefur náð sátt við bandarísk stjórnvöld vegna málsins og greiðir 750 milljóna dala sekt og Eckard á samkvæmt bandarískum lögum rétt á hluta af þeirri fjárhæð.
Cheryl Eckard starfaði sem gæðaeftirlitsmaður hjá GlaxoSmithKline og var árið 2002 send til Púertó Ríko vegna vandamála sem þar höfðu komið fram. Höfðu bandarísk stjórnvöld þá gripið til aðgerða gagnvart verksmiðjunni vegna ýmiskonar brota á reglum, þar á meðal fyrir að framleiða húðáburð fyrir börn, sem reyndist mengaður.
Eftir að Eckard kom til Púertó Ríkó sá hún fljótt, að margt var að í verksmiðjunni. Starfsfólk stal lyfjum til að selja á svörtum markaði og einnig var lítið eftirlit með lyfjaframleiðslunni.
Fram kemur á fréttavef Guardian, að Eckhard sendi yfirmönnum GlaxoSmithKline skýrslur um málið og á næstu 10 mánuðum hafði hún ítrekað samband við yfirmenn fyrirtækisins sem hundsuðu viðvaranir hennar. Eckard var rekin úr starfi árið 2003. Áður hafði hún reynt að ná sambandi við J.P. Garnier, þáverandi forstjóra, sem neitaði að tala við hana.
Eckard lét bandarísk stjórnvöld í kjölfarið vita af niðurstöðum sínum og afleiðingarnar urðu þær, að verksmiðjunni var lokað á síðasta ári og bandarísk stjórnvöld undirbjuggu mál gegn GlaxoSmithKline, sem laun nú með sátt.
Talið er að greiðslan, sem Eckard fær í sinn hlut, sé sú stærsta sem uppljóstrari hefur fengið í samræmi við bandarísk lög. Eckard, sem er 51 árs, starfar nú sem óháður ráðgjafi fyrir lyfjafyrirtæki.