Grískt greiðslufall óumflýjanlegt

Reuters

Vaxandi söluþrýstingur hefur verið á grísk ríkisskuldabréf í vikunni. Ummæli framkvæmdastjóra stærsta skuldabréfasjóðs heimsins, PIMCO, um að gjaldþrot gríska ríkissjóðsins væri óumflýjanlegt og í raun æskilegt, hafa ásamt vaxandi stjórnmálaóvissu skotið fjárfestum skelk í bringu.

Á ráðstefnu sem breska tímaritið The Economist hélt í vikunni lét Mohamed El-Erian, framkvæmdastjóri PIMCO, þau orð falla að gríska ríkið myndi verða gjaldþrota innan þriggja ára, þar sem niðurskurður á ríkisútgjöldum einn og sér myndi ekki gera neitt til þess að draga úr hinum mikla skuldavanda. Sem kunnugt er eru skuldir gríska ríkisins um 120% af landsframleiðslu og gera spár ráð fyrir að hlutfallið verði komið í 150% innan þriggja ára þegar sérstakri neyðaraðstoð ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lýkur.

Áratugur atvinnuleysis og lítils hagvaxtar

Slík skuldsetning minnir um margt á stöðu sumra ríkja Rómönsku-Ameríku fyrir nokkrum áratugum. Enda sagði El-Erian að mikil hætta væri á því að næstu tíu árin í Grikklandi myndu einkennast af miklu atvinnuleysi og litlum hagvexti á meðan ríkið skæri niður útgjöld til þess að standa undir skuldabyrðinni. Með þessu vísaði hann til níunda áratugarins sem oft verið kallaður „týndi áratugurinn“ í hagsögu Rómönsku-Ameríku. Grikkir hafa nú þegar fengið forsmekkinn af þessu. Atvinnuleysi hefur ekki mælst meira í tíu ár og er nú um 12%. Á sama tíma er gert ráð fyrir að hagvöxtur dragist saman 4% í ár og 2,6% á næsta ári.

Í ljósi þessa telur El-Erian hagsmuni gríska ríkisins beinlínis felast í greiðslufalli, samhliða samvinnu við lánardrottna um niðurfellingu og endurskipulagningu skulda. Efnahagsáætlun stjórnvalda, ESB og AGS felur í sér niðurskurð á útgjöldum sem nemur um 11% af landsframleiðslu. Fram kom í máli El-Erian að áætlunin væri óraunhæf og til þess fallin að koma í veg fyrir að gríska hagkerfið yxi úr vandanum. Hann sagðist ennfremur ekki vita til þess að stjórnvöldum hefði nokkurn tíma tekist að grípa til svo mikils niðurskurðar. El-Erian starfaði um árabil hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Á sama tíma ríkir pólitísk óvissa í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna í Grikklandi. Skoðanakannanir benda til þess að PASOK-flokkur George Papandreous, forsætisráðherra ríkisstjórnar sósíalista, fái útreið í kosningunum í næsta mánuði. Forsætisráðherrann hefur sagt að boða þurfi til þingkosninga fljótlega ef niðurstaða sveitarstjórnarkosninganna verði túlkuð á þann veg að stjórn hans hafi hvorki umboð né stuðning til þess að hrinda hinum miklu niðurskurðaráformum í framkvæmd.

Hallamál

Grískir embættismenn eru orðnir alræmdir fyrir óáreiðanlegar hagtölur. Nú hafa sérfræðingar ESB loksins áætlað að fjárlagahallinn í fyrra hafi verið 15% af landsframleiðslu. Hallinn í fyrra hefur nú verið endurmetinn fimm sinnum en stjórnvöld áætluðu í fyrstu að hann yrði um 3%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK