Löngu fyrir bankahrun var ljóst að samdráttur yrði í íslensku hagkerfi á árunum 2009 og 2010. Kom þetta fram í máli Más Guðmundssonar, Seðlabankastjóra, á Haustráðstefnu KPMG í dag.
Sagði Már að allt frá árinu 2006 hafi Seðlabankinn spáð samdrætti á landsframleiðslu árið 2010, þótt spárnar hafi gert ráð fyrir mun minni samdrætti en raun varð á. Hann sagði hins vegar að starfsfólk bankans hefði sagt sér að líkönin, sem unnið var eftir, hafi spáð mun meiri samdrætti en birtar spár sýndu. Þau hafi bara ekki þorað að birta þessar svartsýnu spár, því nógu hörð var gagnrýnin utan frá á þær hóflegu samdráttarspár, sem þó voru birtar.
Samdrátturinn hafi verið óhjákvæmilegur eftir áralanga ofþenslu í hagkerfinu og hann hefði komið til, hvort sem bankarnir hefðu hrunið eður ei.
Bankahrunið ekki endilega áhrifamest
Már sagði einnig að hafa beri í huga að margs konar áföll hafi dunið á íslenska hagkerfinu árið 2008. Gengi krónunnar hafi hrunið vorið 2008, bankahrun haustið sama ár og mikill samdráttur í erlenda hagkerfinu á fjórða ársfjórðungi 2008 og fyrsta fjórðungi 2009. Sagði Már að það væri verðugt rannsóknarefni að skoða hver þessara þátta hefði ráðið mestu um þann samdrátt sem varð hér á árunum 2009 og 2010, en það myndi hins vegar ekki koma honum á óvart ef í ljós kæmi að bankahrunið sjálft hefði ekki ráðið mestu.
Már tók það fram á fundinum, að vegna þess hve stutt er í næstu vaxtaávörðun Seðlabankans, mætti hann ekki tala neitt um framtíðarhorfur eða nokkuð sem túlka mætti sem vísbendingu um vaxtabreytingar.