Gjaldeyrishöftum aflétt gagnvart Össuri hf.

Höfuðstöðvar Össurar.
Höfuðstöðvar Össurar.

Greiningardeild Arion banka gerir að umtalsefni í dag heimild, sem Seðlabankinn hefur veitt hluthöfum Össurar hf. til að flytja hlutabréfeign sína í fyrirtækinu af íslenska markaðnum yfir á þann danska. Segir Arion banki, að þetta veki nokkra furðu enda sé verið að gera ákveðnum hópi fjárfesta kleift að koma fjármunum sínum úr landi þrátt fyrir gildandi gjaldeyrishöft.

Arion banki segir, að það veki þó nokkra furðu að Seðlabankinn skuli veita slíka heimild án þess að hún sé kynnt opinberlega af bankanum með rökstuðningi. Ef til vill væri hægt að líta á þetta sem einn lið í því ferli að afnema gjaldeyrishöftin en þá sé skrýtið, að þessi heimild skuli aðeins eiga við Össur eitt fyrirtækja, en fjögur önnur félög séu með tvíhliða skráningu. BankNordik, Atlantic Petroleum og Atlantic Airways eru skráð í Kauphöll Íslands og einnig í dönsku kauphöllinni. Fjórða félagið er Century Aluminum en það er skráð á Íslandi og á Nasdaq markaðnum í New York.

Arion banki segir, að athyglisvert verði að sjá hvort skráning annarra tvískráðra félaga í Kauphöllinni  fái í framhaldi sömu meðferð. Að öðrum kosti verði fróðlegt að sjá rökstuðning Seðlabankans fyrir því að gefa hluthöfum þessa einstaka fyrirtækis undanþágu frá fjármagnshöftunum en ekki öðrum.
 
„Það er erfitt annað en að setja sértæka undanþágu til handa hluthöfum Össurar í samband við þann vandræðagang er ríkir í boðskiptum Seðlabankans við markaðsaðila um afnám fjármagnshaftanna. En undanfarnar vikur hefur nokkuð skort á að talsmenn bankans séu samstíga og samkvæmir sjálfum sér í yfirlýsingum sínum. Sú trú hefur nú grafið sig djúpt hjá markaðsaðilum að í raun og veru sé engin áætlun til staðar um afnám gjaldeyrishaftanna en Seðlabankinn sé aðeins að fálma sig áfram," segir í Markaðspunktum Arion banka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK