Slitastjórn Glitnis segir, að gögn sem hún fékk í hendur í nú október um kaup FL Group á hlutabréfum í Tryggingamiðstöðinni í september 2007 sýni, að Hannes Smárason, þáverandi forstjóri FL Group, hafi þá haft áhrif innan stjórnar Glitnis, þvert á fullyrðingar hans.
Í bréfi til Charles E. Ramos, dómara við hæstarétt Manhattan, sem birt var á vef réttarins í gærkvöldi, fara lögmenn slitastjórnarinnar þess á leit að fá að leggja fram samning um kaup FL Group á hlut Hnotskurnar ehf. í Tryggingamiðstöðinni fyrir tæpa 2 milljarða króna.
Greitt var fyrir TM-bréfin með nýju hlutabré í FL-Group. Í sérstöku minnisblaði um kaupin, sem undirritað var af Hannesi Smárasyni fyrir hönd FL Group og Katrínar Pétursdóttur fyrir hönd Hnotskurnar, og merkt er sem trúnaðarmál, segir m.a. að samhliða þessum viðskiptum tryggi FL Group að Hnotskurn muni geta fjármagnað sig á sambærilegum kjörum og nú sé fyrir kaupunum í FL Group.
Síðan stendur í minnisblaðinu sem er dagsett 16. september 2007:
3. FL group mun hlutast til um að Hnotskurn öðlist sölurétt á helming hlutafjáreignar sinnar í FL group eftir 12 mánuði með 15% vöxtum.
4. FL group mun hlutast til um að Glitnir klári samkomulag við Hnotskurn um losun á 250 milljónum á morgun en félagið (Hnotskurn) hefur verið í viðræðum um þau viðskipti við Glitni.
Lögmaður slitastjórnar Glitis segir, að þetta hliðarsamkomulag sýni, að Hannes Smárason hafi haft nægileg völd í Glitni til að tryggja að Glitnir lánaði umtalsvert fé til Hnotskurnar.
Slitastjórnin segir, að fundargerðir stjórnar FL Group frá 9., 16. og 25. september 2007 sýni, að Hannes var viðstaddur þegar rætt var um þessi viðskipti og tekið virkan þátt í að ljúka þeim. FL Group keypti einnig bréf í Tryggingamiðstöðinni af fleiri félögum á þessum tíma, þar á meðal Glitni, Kjarrhólma, Kristni og Samherja, samtals 46,2% eignarhlut. Fyrir átti FL Group 37,6% hlut í TM og 84% hlut eftir kaupin.
Fram kemur í bréfi lögmanns slitastjórnarinnar, að slitastjórnin hafi ekki fengið fundargerðir FL Group í hendur fyrr en 8, október sl. en hún hafi átt í viðræðum við Stoðir, áður FL Group, mánuðum saman. Þá hafi slitastjórnin fengið gögnin frá Hnotskurn í byrjun október í tengslum við trúnaðarsamkomulag milli Hnotskurnar og slitastjórnarinnar. Þá hafi Hnotskurn ekki veitt slitastjórninni leyfi til að leggja gögnin fram í dómsmálinu á Manhattan fyrr en 26. október.
Slitastjórn Glitnis hefur höfðað skaðabótamál á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Hannesi Smárasyni, fimm öðrum einstaklingum og PricewaterhouseCoopers fyrir dómi á Manhattan og krefjst 2 milljarða dala skaðabóta fyrir tjón, sem þessir aðilar hafi valdið Glitni banka.