Ekki má gera ráð fyrir því að neinar breytingar verði gerðar á gjaldeyrishöftum fyrr en á næsta ári. Gjaldeyrishöftin verða ekki afnumin fyrr en fjórðu endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er lokið. Að sögn Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, er ekkert öruggt í hendi um að einhverjar breytingar verði gerðar á gjaldeyrishöftunum í mars en hann segir að öruggt sé að engar breytingar verði gerðar fyrir þann tíma.
Áður en ný áætlun verður kynnt varðandi afnám gjaldeyrishafta gætu aðgerðir til að undirbúa afgerandi afnám hafta á fjármagnsútflæði litið dagsins ljós að því gefnu að ekki komi fram lagalegar eða aðrar hindranir. Þetta er meðal þess sem fram kom í yfirlýsingu seðlabankastjóra sem hann kynnti á fundi með blaðamönnum í dag.
„Hér gæti verið um að ræða aðgerðir til að leyfa, gegnum skipulögð uppboð, skipti á löglega fengnum aflandskrónum fyrir löglegar erlendar eignir innlendra aðila. Einnig kæmi til greina að leyfa fjárfestingu löglega fenginna aflandskróna í sérstökum langtíma verkefnum eða öðrum sértækum verkefnum á Íslandi," segir í yfirlýsingu Más.
Að gefnu því að það gæti dregist til áramóta að bæta úr hugsanlegri vöntun á eigin fé í bankakerfinu, þá er ekki raunhæft að ætla að önnur skref en þau sem lýst var hér að framan verði stigin til að aflétta höftum á útflæði fjármagns fyrir árslok.
Auk þess verða engin slík skref stigin áður en endurskoðuð áætlun hefur verið kunngerð. Ennfremur verða engar grundvallarbreytingar á núverandi reglum gerðar fyrr en í mars 2011 þótt endurskoðuð áætlun verði tilbúin fyrir þann tíma.
Hafa ber í huga að heimildir í lögum um gjaldeyrishöft renna út í lok ágúst 2011. Hins vegar gæti tillaga um framlengingu lagaheimildarinnar orðið hluti af endurskoðaðri áætlun, sem verður lögð fram fyrir marsmánuð 2011.