Gert er ráð fyrir að framkvæmdir vegna álvers í Helguvík fari í fullan gang á árinu 2012 og haldi áfram árið 2013 en meginþungi fjárfestinganna verði á þessum tveimur árum, samkvæmt nýrri spá Seðlabanka Íslands. Samkvæmt þessum forsendum hefst útflutningur áls frá álveri í Helguvík á síðari hluta ársins 2014.
Grunnspá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir því að framkvæmdir í tengslum við álver í Helguvík og tengdar orkuframkvæmdir fari á fulla ferð árið 2012 og nái hámarki á árinu 2013. Um er að ræða fyrsta áfanga af fjórum fyrirhuguðum, en hver þeirra skilar um 90 þús. tonna framleiðslu á ári.
Áætluð fjárfesting í fyrsta áfanga er u.þ.b. 75 milljarðar króna, sem er nálægt helmingi meiri en fjárfesting í þeim áföngum sem hugsanlega fylgdu í kjölfarið.
Í grunnspánni er ekki gert ráð fyrir að ráðist verði í fleiri en einn áfanga enda hafa aðrir áfangar lítil áhrif innan spátímans. Gert er ráð fyrir að HS Orka ásamt Orkuveitu Reykjavíkur muni afhenda orku til fyrsta áfanga ásamt töluverðri fjárfestingu af hálfu Landsnets til að styrkja raflínur á suðvesturhorni landsins. Tæplega nítján hundruð ársverk eru áætluð við framkvæmdina og um 250 ársverk við rekstur álversins.
Framkvæmdum við álver í Helguvík hefur ítrekað seinkað vegna vandamála við fjármögnun, óvissu um aðgengi að nægilegri orku og vandamála í tengslum við skipulags- og leyfismál, segir í Peningamálum.
„Er nú svo komið að líkur á að þær verði slegnar af um óákveðinn tíma hafa aukist. Í þessu fráviksdæmi er því gert ráð fyrir að ekki verði af þessum framkvæmdum á spátímanum. Í samanburði við grunnspána hefði það fyrst og fremst áhrif á efnahagsþróunina á árunum 2012-2013," segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.