Spá 3½% vexti einkaneyslu á næsta ári

Einkaneysla eykst minna í ár en áður var talið
Einkaneysla eykst minna í ár en áður var talið Reuters

Seðlabanki Íslands spáir því að einkaneysla  muni aukast um 3½% á næsta ári en 2½% á árunum 2012 og 2013. Vöxtur einkaneyslu verður væntanlega minni í ár heldur en áður var talið en einkaneysla dróst saman á öðrum ársfjórðungi samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands fyrir annan ársfjórðung nam árssamdráttur einkaneyslu á öðrum fjórðungi 2,1%, sem er svipaður samdráttur og spáð var í Peningamálum í ágúst en þá var spáð 1,5% samdrætti.

Leiðandi vísbendingar, m.a. úr veltutölum, gefa til kynna að vöxturinn á þriðja ársfjórðungi hafi verið nokkuð kröftugur. Vöxturinn á árinu í heild verður þó heldur minni en spáð var í ágúst.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar fyrir annan ársfjórðung var árssamdráttur fjármunamyndunar rúmlega 26%, sem er töluvert meiri samdráttur en spáð hafði verið í ágúst en þá var gert ráð fyrir 12,6% samdrætti.

Nýjar tölur um innflutning fjárfestingarvöru, vísbendingar um fjárfestingaráform úr viðhorfskönnun Capacent Gallup um fjárfestingaráætlanir 400 stærstu fyrirtækja landsins og upplýsingar um fjárfestingu í orkufrekum iðnaði á fyrri hluta ársins gefa hins vegar til kynna að tölur Hagstofunnar um fjárfestingu á öðrum ársfjórðungi verði endurskoðaðar upp á við í næstu endurskoðun þjóðhagsreikninga í desember. Áætlað er að samdrátturinn á öðrum ársfjórðungi hafi verið 15%, sem er mun nær ágústspá Seðlabankans en áætlun þjóðhagsreikninga.

Spáð er að fjárfesting dragist saman um 3,7% í ár, sem er óbreytt spá frá ágúst. Bati fjárfestingar á næsta ári verður hins vegar töluvert veikari en gert var ráð fyrir í ágúst vegna minni fjárfestingar í orkufrekum iðnað. Á móti verður árið 2012 sterkara.

Á heildina litið er því útlit fyrir að þjóðarútgjöld dragist saman um 1½% á þessu ári í stað tæplega 1% í ágústspánni. Þau munu hins vegar aukast um tæp 3% á næsta ári og um u.þ.b. 4% á árunum 2012 og 2013. Innlend eftirspurn mun því aukast minna á næsta ári en spáð var í ágúst en á móti verður vöxturinn meiri á seinni hluta spátímans, segir ennfremur í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Margt bendir til þess að þjóðarbúskapurinn hafi náð botni og stefni nú upp á við eftir mikið samdráttarskeið. Í þeirri spá sem hér er birt felst að viðsnúningurinn hafi átt sér stað um mitt þetta ár. Útlit er fyrir að efnahagsbatinn verði hægur. Spáð er 1,3% hagvexti á ári að meðaltali frá árinu 2009 til ársins 2013 sem er mun minni vöxtur en meðaltal undanfarinna áratuga.

Viðbrögð heimilanna við samdrætti ráðstöfunartekna, rýrnun eigna og hækkun skulda, auknu atvinnuleysi og aukinni efnahagslegri óvissu voru að draga mjög mikið úr neyslu og auka sparnað.

„Nú er talið að einkaneysla á mann hafi verið um 24,5% minni á árinu 2009 en á árinu 2007. Á sama tíma lækkaði kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um 19,5%. Minni samdráttur ráðstöfunartekna en einkaneyslu þýðir að sparnaður heimilanna hefur aukist. Sennilega er nokkur hluti þessa sparnaðar þvingaður vegna mikillar greiðslubyrði af lánum og takmarkaðra möguleika á nýjum lánum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK