Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,75 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka í 4,0% og hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum í 5,25%. Vextir á lánum gegn veði til sjö daga lækka í 5,5%, svokallaðir stýrivextir, og daglánavextir í 7,0%.
Greiningardeildir spáðu því að stýrivextir myndu lækka um 0,5-0,75 prósentustig í dag. Vextir Seðlabanka Íslands lækkuðu á síðasta vaxtaákvörðunardegi um 0,75 prósentustig. Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabanka Íslands er þann 8. desember nk.
Klukkan 11 hefst vefútsending Seðlabankans þar sem gert er ráð fyrir ákvörðun peningastefnunefndar að lækka vexti nú. Á sama tíma verða Peningamál Seðlabankans birt á vef bankans. Ítarlega verður fjallað um Peningamál á vef mbl.is í dag.