Icelandair og SAS hafa samið sín á milli um margháttað samstarf sem einkum snýr að samkenndum flugum og gagnkvæmum réttindum fyrir vildarklúbbsfélaga. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Þar segir að samningurinn feli í sér að frá og með 8. nóvember verði flug SAS frá Kaupmannahöfn og Stokkhólmi til Berlínar, Gautaborgar, Hamborgar, Mílanó, Munchen, Vilnius, Zurich og Varsjár samkennt með Icelandair, sem tryggi þægilegri tengingar og þjónustu milli Íslands og þessara áfangastaða.
Þá segir ennfremur að í samningnum sé einnig kveðið á um samstarf vildarklúbba félaganna og stefnt að því að snemma árs 2011 muni félagar í Vildarklúbbi Icelandair geta nýtt vildarréttindi sín í EuroBonus klúbbi SAS, jafnframt því sem viðskiptavinir SAS öðlist samskonar réttindi í Vildarklúbbi Icelandair.
„Samkomulagið tryggir þægilegri tengingar og hagstæðari fargjöld milli Íslands og Evrópu í gegnum tengistöðvar SAS í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi,“ segir Robin Kamark, framkvæmdastjóri sölumála SAS, í tilkynningunni.
„Þessar bættu tengingar og þjónusta eru góðar fréttir fyrir viðskiptavini Icelandair. Við getum nú boðið betri þjónustu og við fögnum því að auka samstarf okkar við SAS með þessum hætti,“ segir Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, í tilkynningu.