Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir hugsanlegt að tekin verði upp ný peningamálastefna á Íslandi sem miði meðal annars að því að Seðlabankinn reyni að stýra gengi krónunnar. Þetta hefur Reuters-fréttaveitan eftir Má.
Í viðtali við Reuters-fréttaveituna segir Már að þegar fram í sækir gæti peningamálastefnan snúist um að verðbólgumarkmið bankans ásamt því að Seðlabankinn reyni að hafa áhrif á gengi krónunnar með markaðsaðgerðum. Sem kunnugt er þá hefur opinber peningamálastefna bankans snúist eingöngu um verðbólgumarkmið frá aldamótum. Fullyrt er í umfjöllun Reuters að stjórnvöld hyggist létta á gjaldeyrishöftunum á næsta ári en haft er eftir Má að skref í átt að afnámi haftanna muni gera framkvæmd peningamálastefnunnar flókna í framkvæmd.
Seðlabankastjórinn segir við Reuters að hann telji ekki rétt að bankinn haldi sig við núverandi peningamálastefnu þegar búið verði að afnema höftin. Skynsamlegra væri að peningamálastefnan snérist um að reyna hafa áhrif á gengi krónunnar ásamt því að halda verðlagi stöðugu.
Eðli málsins samkvæmt þurfa þeir seðlabankar sem setja sér gengismarkmið, hvort sem þeir eru bundin við þröng vikmörk eða sveigjanleg, að sitja mun meiri gjaldeyrisvaraforða en þeir seðlabankar sem horfa eingöngu til verðbólgumarkmiða. Enda segir Már í viðtalinu við Reuters að hugsanlegri stefnubreytingu myndi fylgja áhersla á að gjaldeyrisvaraforði bankans yrði efldur. Sem kunnugt er sá gjaldeyrisforði sem Seðlabankinn situr á í dag er að stærstum hluta fjármagnaður með lántökum.
Í viðtalinu við Reuters segir Már að menn ættu að horfa til Brasilíu í þessum efnum og hvaða leið þeir fóru þegar samstarfi þeirra við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn rann sitt skeið á enda á sínum tíma.