Óveðursský halda áfram að hrannast upp yfir skuldsettustu evruríkjunum. Í gær tilkynntu tveir af stærstu ríkisfjárfestingasjóðum heims að ríkisskuldabréf ákveðinna evruríkja væru orðin svo áhættusöm að þau rúmuðust ekki innan fjárfestingastefnu þeirra.
Samkvæmt breska blaðinu Financial Times hefur fjárfestingasjóður rússneska ríkisins, sem situr á eignum að andvirði 143 milljarðar Bandaríkjadala, tekið bæði Írland og Spán af lista yfir þau lönd sem hann fjárfestir í. Á sama tíma hefur norski olíusjóðurinn, sem er næststærsti ríkisfjárfestingasjóður heims, lýst því yfir að spænsk ríkisskuldabréf séu orðin marktækt verri fjárfestingakostur en þau voru fyrir nokkrum mánuðum.
Þetta mat ríkisfjárfestingasjóðanna er í takt við vaxandi svartsýni fjárfesta á efnahagshorfurnar í verst stöddu evruríkjunum.
Ávöxtunarkrafan á ríkisskuldabréf Grikklands, Portúgals og Spánar hélt áfram að hækka í gær. Sérstaka athygli vakti að krafan á írsk ríkisskuldabréf hækkaði í gær – áttunda daginn í röð – þar sem fjölmiðlar fullyrtu að Evrópski seðlabankinn hafi verið að kaupa upp slík bréf til þess að koma kröfunni niður.
Krafan á írsk ríkisskuldabréf fór í hæstu hæðir í gær og fór krafan á tíu ára bréf í 7,41% um tíma. Krafan er því komin á svipaðan stað og hún var á grískum ríkisskuldabréfum í vor, rétt áður en ljóst varð að gríska ríkið stóð frammi fyrir greiðslufalli ef neyðaraðstoð bærist ekki í tæka tíð.
Athyglisvert er að krafan á írsk ríkisskuldabréf sé orðin svo há þar sem írska ríkið er að fullu fjármagnað fram til apríl á næsta ári. Auk þess situr það á 12 milljarða evra lífeyrissjóði sem hægt væri að ganga á í neyð.
Skýringin kann meðal annars að finnast í ákvörðunum leiðtogafundar Evrópusambandsins fyrir viku en þar var lögð áhersla á að reglur um neyðaraðstoð ESB handa evruríki í skuldakreppu í framtíðinni þyrfti að fela það í sér að eigendur ríkisskuldabréfa þeirra bæru hluta af kostnaðinum. Með öðrum orðum þýðir þetta að fjárfestar geta ekki gengið að því sem vísu að aðildarríki tryggi skuldir evruríkis eins og óbeint var gert með skuldir gríska ríkisins í vor. Þetta hefur meðal annars leitt til hækkandi áhættuálags á skuldsettustu evruríkin og haldi þessi þróun áfram gætu sum þeirra staðið frammi fyrir svo háum fjármagnskostnaði að hann útiloki endurfjármögnun eldri skulda.