Fjárfesting ekki minni frá stríðslokum

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Um það bil 3% hagvöxtur eins og nú er spáð á árunum 2012 og 2013 er ágætur í meðalárferði, að mati Más Guðmundssonar, Seðlabankastjóra. Á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs í dag sagði hann hins vegar að samantekinn er hagvöxturinn á árunum 2011 og 2012 veikur í ljósi þess mikla slaka sem nú er í íslensku efnahagslífi. „Það sem meira er, undirstöðurnar eru ekki vel traustar þar sem framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtarins er neikvætt og fjárfesting mun verða verulega fyrir neðan sögulegt meðaltal jafnvel þó svo að hún muni aukast töluvert frá því sem nú er.“

Segir Már að samkvæmt spá Seðlabankans muni útflutningur vöru og þjónustu aðeins aukast um  tæplega 1% á næsta ári og síðan tekur við 2% árlegur vöxtur næstu tvö ár á eftir, og það þrátt fyrir að raungengi verði verulega undir sögulegu meðaltal allt tímabilið.

„Fjármunamyndun í heild mun nema tæplega 13,5% af landsframleiðslu á þessu ári og atvinnuvegafjárfesting tæplega 9%. Á árunum 1980-2009 námu þessi hlutföll að meðaltali tæplega 22% annars vegar og tæplega 13% hins vegar. Hvað fjármunamyndun í heild varðar er hlutfallið í ár það lægsta á eftirstríðsárunum. Atvinnuvegafjárfesting var hins vegar lægri á árinu 1945, árin 1993-1995 og í fyrra. Jafnvel í lok spátímabilsins á árinu 2013 er fjármunamyndunin, sem þá verður 18% af landsframleiðslu, í lægra lagi miðað við það sem ætla má að þurfi til að halda uppi til lengdar uppi 3% hagvexti, sem er metið á rúm 20%.“

Ekki bara áhættufælni

Segir Már að þessi þróun fjárfestingarstigsins sé ekki í ósamræmi við reynslu ýmissa annarra þjóða sem hafa búið við hátt fjárfestingarhlutfall í aðdraganda fjármálakreppu. „Samt er það auðvitað visst áhyggjuefni og mikilvægt verkefni að vinna að því að þetta verði „bara spár“ því ekkert er óhjákvæmilegt í þessum efnum.“

Segist Már hafa að undanförnu hafa lagt áherslu á það í ræðum sínum að þótt vaxtastigið hafi auðvitað einhver áhrif á fjárfestingarstigið þá sé það líklega um þessar mundir langt í frá að vera sá áhrifaþáttur sem mestu skiptir, sérstaklega eftir að vextirnir eru orðnir eins lágir og raun ber vitni. „Ég held að hér leiki aðrir þættir miklu meira hlutverk eins og áhættufælni í framhaldi af fjármálakreppu, óvissa um eftirspurn og rekstrarumhverfi, skertur aðgangur að erlendu lánsfé og laskaðir efnahagsreikningar fyrirtækja. Í þessu þarf að vinna og það er meðal annars þess vegna sem það er svo brýnt að aukinn kraftur komist í fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja.“

Ræða Más í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK