Lögmaður Hannesar Smárasonar vísar þeirri túlkun slitastjórnar Glitnis á bug, að minnisblað um samkomulag milli FL Group og Hnotskurnar um viðskipti með bréf Tryggingamiðstöðvarinnar í september 2007 sýni fram á að Hannes hafi haft áhrif á ákvarðanir og lánveitingar Glitnis.
Lögmaður slitastjórnar Glitnis skrifaði dómara hæstaréttar Manhattan bréf í síðustu viku þar sem sagði, að gögn sem slitastjórnin fékk í hendur í október um kaup FL Group á hlutabréfum í Tryggingamiðstöðinni í september 2007 sýni, að Hannes, sem þá var forstjóri FL Group, hafi þá haft áhrif innan stjórnar Glitnis, þvert á eiðsvarnar yfirlýsingar hans fyrir dómnum.
Vísað var m.a. í minnisblað þar sem sagði:
FL group mun hlutast til um að Glitnir klári samkomulag við Hnotskurn um losun á 250 milljónum á morgun en félagið (Hnotskurn) hefur verið í viðræðum um þau viðskipti við Glitni.
Í bréfi, sem lögmaður Hannesar hefur sent dómaranum, og birt er á vef dómstólsins, segir að gögnin, sem slitastjórnin birti í síðustu viku, sanni ekki með neinum hætti að Hannes hafi beitt sér fyrir lánveitingum til þriðja aðila innan Glitnis, þar á meðal til Hnotskurnar.
Þá sanni skjölin ekki á neinn hátt að Hannes hafi átt í viðskiptum í New York, sem tengist skaðabótamáli slitastjórnar Glitnis á hendur sjö einstaklingum. Þá sé ekki hægt að gera Hannes ábyrgan fyrir að uppfylla ekki skuldbindingar sínar gagnvart Glitni í september 2007 vegna þess að Hannes hafi hvorki verið í stjórn bankans né á launaskrá hans.